Eurosonic er ekki einungis tónlistarhátíð heldur einnig tónlistarráðstefna, þar sem fulltrúar allra stærstu popp- og raftónlistarhátíða í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar, ásamt ríkisútvarpsstöðvum Evrópu og Norðurlandanna mætast. Hún er jafnframt hugsuð fyrir bransafólk og hafa íslenskir listamenn vakið mikla lukku á hátíðinni undanfarin ár.

„Það er talið í endann hver fær flestar festivalsbókanir og fékk FM Belfast gífurlega mikið af festivalsbókunum á sínum tíma, en sveitin er enn á fullu að spila hér og þar. Svo fékk Ásgeir Trausti mikið af bókunum þegar hann fór á Eurosonic árið 2013,“ bætir Sigtryggur við.
Ísland var svokölluð fókusþjóð á hátíðinni í fyrra en þá komu nítján íslensk nöfn fram á hátíðinni og þá var einnig boðið upp á pallborðsumræður um Iceland Airwaves og tónlistartengda ferðamennsku, enda Ísland verið mjög framarlega í tónlistarheiminum, sérstaklega miðað við höfðatölu.
Fleiri íslensk nöfn hafa gert góða ferð út eins og meðal annars Fufanu og Mammút. „Þetta er öflug bransahátíð og nú erum við að reyna að fá ákveðna aðila til að koma og tékka á ákveðnum böndum,“ segir Sigtryggur.
IQ Magazine verður meðal annars með umfjöllun um íslensku nöfnin á hátíðinni.
Sigtryggur segir mikið af umsóknum um að fá að koma fram á Eurosonic berast á ári hverju. „Við biðjum bönd um að sækja um. Það sóttu einhver fjörutíu til fimmtíu bönd um í fyrra og svo velur Eurosonic þau bönd sem koma fram. Við höfum ekki mikið um það að segja hvað þeir velja,“ segir Sigtryggur spurður út í fyrirkomulagið.
Eurosonic fer fram dagana 13.-16. janúar.