Innlent

Ófærð orsök fjölda útkalla hjá björgunarsveitum

Atli Ísleifsson skrifar
Björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast í dag.
Björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast í dag. Vísir/Vilhelm
Nokkur erill hefur verið hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem hafa víða verið að störfum í dag, yfirleitt vegna ófærðar.

Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að tilkynnt hafi verið um nokkra fasta bíla á Mosfellsheiði og Þingvallavegi. Á Snæfellsnesi voru fastir bílar á Vatnaleið og við Vegamót, í Langadal á Möðrudalsöræfum voru fjórir bílar með ellefu manns fastir. Fólkið var flutt í Jökuldal en bílarnir skildir eftir.

„Á Fáskrúðsfirði var björgunarsveit kölluð út þegar þakgluggi fauk upp á íþróttahúsinu. Þegar komið var á staðinn var glugginn farinn og opinu því lokað með plötu.

Í Reykhólahreppi aðstoðaði björgunarsveit sjúkrabíl við að komast leiðar sinnar og sveitin á Selfossi var kölluð út til að hjálpa sjúkraflutningum að komast á slysstað í sumarbústað við Þingvallavatn. Svo fór að þyrla Landhelgisgæslunnar sótti hinn slasaða en björgunarsveitin aðstoðaði aðstandendur við að komast til Reykjavíkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×