Innlent

Von á stormi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Búast má við stormi Suðaustanlands í dag.
Búast má við stormi Suðaustanlands í dag. Vísir/Vilhelm
Íbúar Suðaustanlands mega búast við stormi allvíða undir Vatnajökli sem og sunnanverðum Austfjörðum í dag. Þá verður hvöss norðanátt, sjókoma og skafrenningur um landið norðanvert framan af degi en þurrt og bjart veður sunnanlands.

Dregur smám saman úr vindi og ofankomu á morgun, fyrst vestast. Veðrið á morgun verður nokkuð skaplegt en undanskilið er norðausturhornið, þar verður allhvöss norðvestanátt og él. Heldur kólnar í veðri, en engu að síður er farið að örla á dálítilli dægursveiflu í hitanum þegar sólar nýtur, enda hækkar hún á lofti með hverjum deginum sem líður.

Þá er vegurinn um Holtavörðuheiði enn lokaður vegna veðurs auk þess sem að lokað er um Siglufjarðarveg og Súðavíkurhlíð vegna snjóflóða. Einnig er lokað um Mosfellsheiði og Holtavörðuheiði vegna veðurs.

Færð og aðstæður

Hálka og óveður er á Kjalarnesi og lokað er um Mosfellsheiði. Snjóþekja og skafrenningur er á Sandskeiði en hálka á Hellisheiði og í Þrengslum en annars er hálka eða hálkublettir á flestum öðrum leiðum en þó snjóþekja sumstaðar í uppsveitum.

Hálka eða hálkublettir eru víða á Vesturlandi en þó er lokað um Holtavörðuheiði og ófært er um Bröttubrekku, unnið er að hreinsun. Á Snæfellsnesi er ófært yfir Fróðárheiði og fyrir nes en þæfingsfærð er á Vatnaleið og unnið er að hreinsun, þá er hálka og óveður á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Á Vestfjörðum er ófært um Steingrímsfjarðarheiði, Þröskulda og Klettsháls. Snjóþekja og skafrenningur er á Hálfdán, Mikladal en þungfært á Kleifaheiði. Lokað er um Súðavíkurhlíð.

Snjóþekja eða þæfingur ásamt skafrenning eða snjókomu er á flestum leiðum á Norðurlandi. Ófært er á Vatnsskarði en unnið er að opnun, einnig er ófært um Þverárfjall og þæfingsfærð er á bæði Öxnadalsheiði og Víkurskarði.

Á Austurlandi er ófært um Möðrudalsöræfi og þungfært í Jökuldal, þá er þungfært á Fjarðarheiði þar sem einnig er stórhríð. Hálka eða snjóþekja er á flestum öðrum leiðum. Autt er að mestu með suðaustur ströndinni en þó hálkublettir á köflum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×