Lilja Alfreðsdóttir, verðandi utanríkisráðherra Íslands, er komin á ríkisráðsfund á Bessastöðum. Lilja tekur við ráðuneyti Gunnars Braga Sveinssonar sem verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Lilja hefur tekið þátt í starfi Framsóknar og sinnir nú starfi verkefnastjóra í forsætisráðuneytinu. Lilja verður ráðherra að tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar en þau hafa starfað náið saman undanfarin ár.
Lilja er alþjóðahagfræðingur að mennt. Hún hefur undanfarin ár starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands. Þá var hún ráðin tímabundið sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu, eða frá 2014 til 2015.
„Mér líst bara mjög vel á það og ætla að ræða við ykkur á eftir,“ sagði Lilja þegar hún mætti til Bessastaða í dag spurð hvernig henni litist á að taka við ráðherrastóli.
