Innlent

Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð í stjórnarráðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Ingi heldur af fundi sínum með Sigmundi Davíð og aðstoðarmönnum hans í stjórnarráðinu upp úr klukkan tólf í dag.
Sigurður Ingi heldur af fundi sínum með Sigmundi Davíð og aðstoðarmönnum hans í stjórnarráðinu upp úr klukkan tólf í dag. Vísir/Anton Brink
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherraefni Framsóknarflokksins eru staddir í stjórnarráðinu þessa stundina. Þar er einnig Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs.

Ekki liggur fyrir hvað rætt er í stjórnarráðinu þessa stundina en þar er að finna skrifstofur forsætisráðuneytisins. Sem kunnugt er steig Sigmundur Davíð til hliðar úr embætti forsætisráðherra í gær að eigin ósk og var sú tillaga samþykkt af þingflokknum.

Ráðuneytið sendi í gærkvöldi frá sér tilkynningu til erlendra fjölmiðla til að útskýra að Sigmundur ætlaði ekki að segja af sér heldur aðeins stíga til hliðar tímabundið. Þingmenn Framsóknar skildu tillögu Sigmundar þó ekki þannig eins og fram hefur komið.

Sigmundur Davíð hefur ekki veitt viðtöl síðan hann steig til hliðar.

Uppfært klukkan 12:17

Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð áttu klukkustundarlangan fund í stjórnarráðinu þar sem „farið var yfir málin“. Sigurður Ingi yfirgaf stjórnarráðið upp úr klukkan tólf og sagðist hann myndu funda frekar með Sigmundi Davíð í dag.

Uppfært klukkan 12:56

Sigmundur Davíð yfirgaf stjórnarráðið en er kominn þangað aftur. Fréttastofa hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná tali af honum í morgun en án árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×