Innlent

Engin gögn sem njóta 110 ára leyndar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þjóðskalastjóri hefur ekki upplýsingar um að til séu skjöl með 110 ára leynd.
Þjóðskalastjóri hefur ekki upplýsingar um að til séu skjöl með 110 ára leynd. Vísir/Vilhelm
Þjóðskjalasafnið segir að ekki hafi reynt á ákvæði laga um opinber skjalasöfn um að tiltekin gögn geti notið 110 ára verndar. Engin gögn njóta þessarar 110 ára verndar í dag. Gögn í hinu svokallaða leyniherbergi á Alþingi þar sem finna má skjöl tengd uppgjöri þrotabúa bankanna njóta hinsvegar 80 ára verndar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn.

Framsóknarflokkurinn hyggst leggja fram frumvarp um afnám 110 ára reglunnar svo varpa megi ljósi á gögn sem varða uppgjör þrotabúa föllnu bankanna. Hefur það verið tengt við gögn sem varða færslu eignarhalds á nýju bönkunum í hendur slitabúanna sem þingmenn hafa aðgang að í lokuðu herbergi á nefndarsviði Alþingis.

Aðeins einn þingmaður í einu má skoða gögnin sem bundin eru trúnaði. Þingmenn mega ekki afrita gögnin og ekki vitna í þau opinberlega en sín á milli kalla þingenn herbergið leyniherbergið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.Vísir/Ernir
„Engin ástæða til þess að halda þessu leyndu lengur og hvað þá í 110 ár“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir, aðspurður um væntanlegt frumvarp Framsóknarflokksins í Reykjavík síðdegis í gær, að mikilvægt væri að aflétta 110 ára leyndinni yfir þessum skjölum og tengdi hann það við leyniherbergið.

„Það er leyniklefi eða leyniherbergi í þinginu þar sem geymt er mikið af gögnum sem varða stofnun nýju bankanna þegar þeir voru afhentir kröfuhöfum og eins hvernig staðið var að þessum málum í framhaldinu. Þetta eru gögn sem er mjög æskilegt að yrðu opinberuð og það sem fyrst til að fá almennilega mynd af því hvernig þetta gekk fyrir sig. Ég held að menn hljóti að geta fallist á það núna að það er engin ástæða til þess að halda þessu leyndu lengur og hvað þá í 110 ár,“ sagði Sigmundur Davíð í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi eru gögnin í leyniklefanum svokallaða hins vegar afrit af gögnum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og um þau gilda því lög um opinber skjalasöfn. Á þeim hvílir ekki 110 ára leynd heldur eru þau lokuð í 80 ár. Hægt er að aflétta trúnaði af þeim með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Enn ekki reynt á ákvæði um 110 ára leynd

Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalastjóri segir í raun að enn hafi ekki reynt á ákvæði um 110 ára leynd yfir gögnum sem sett var í lög um opinber skjalasöfn árið 2014.

Þjóðskjalasafn Íslands.
„Þegar sérstaklega stendur á getur opinbert skjalasafn ákveðið að synja um aðgang að skjali sem er yngra en 110 ára, svo sem þegar það hefur að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklings sem enn er á lífi eða um almannahagsmuni er að ræða,“ segir í upplýsingum frá þjóðskalastjóra.

Þjóðskjalasafnið segir að engin gögn njóti þessarar 110 ára verndar í dag.

„Hjá Þjóðskjalasafni Íslands hefur ekki reynt enn á þetta ákvæði laga um opinber skjalasöfn, þ.e.a.s. engin gögn njóta þessarar 110 ára verndar í dag. Þjóðskjalasafn hefur ekki upplýsingar um hvort reynt hafi á greinina hjá héraðsskjalasöfnum,“ segir í upplýsingum frá þjóðskalastjóra.

Í tilkynningu á vef Framsóknarflokksins þar sem áform um frumvarp flokksins um afnám 110 ára reglunnar voru kynnt er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni, þingflokksformanni Framsóknarflokksins að mikilvægt sé að allt sé uppi á borðum varðandi uppgjör við hrunið og eftirleik þess.

„Það er nauðsynlegt að fara ofan í öll þessi þjóðfélagslega mikilvægu mál, m.a. þau sem snúa að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna og það er fagnaðarefni að nú séu uppi umræður í samfélaginu að skoða þessi mál frá hruni til dagsins í dag,“ segir Ásmundur Einar Daðason um málið á heimasíðu Framsóknar þegar flokkurinn kynnti áform um frumvarpið um að afnema 110 ára leyndina.

Ekki náðist í Ásmund Einar Daðason, þingflokksformann Framsóknarflokksins eða Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×