Securitas var stofnað á Ísland árið 1979 og hefur átt langan og farsælan feril. „Securitas var stofnað í kringum eitt lítið verkefni og nú, nærri fjörutíu árum síðar, erum við enn leiðandi í öryggisgæslu og þjónustu,“ segir Hjörtur Freyr Vigfússon, markaðsstjóri Securitas, glaðlega. Hann segir fyrirtækið í sífelldri þróun eftir því hvað markaðurinn kalli á hverju sinni. „Við höfum fengist við ýmislegt í gegnum tíðina,“ segir Hjörtur en Securitas á einnig nokkur dótturfélög sem tengjast öryggismálum beint og óbeint. Til dæmis er boðið upp á lúxusakstur, geymsluleigu og þjónustu tengda ökutækjaritum og flotastýringum. „Við höfum sinnt fjölbreyttum hlutverkum í gegnum tíðina sem öll tengjast því að veita fólki öryggi og hugarró.“

Margir tengja Securitas við mannaða öryggisgæslu og innbrotakerfi en Hjörtur leggur áherslu á að það sé aðeins hluti af því sem fyrirtækið standi fyrir. „Öryggiskerfin okkar veita ekki síður vörn gegn tjóni af völdum vatns og elds. Við fáum til dæmis mýmörg útköll í hverri viku vegna vatnstjóns,“ segir hann og bendir á að þó öryggiskerfin komi ekki í veg fyrir leka eða bruna þá geti þau hindrað að tjónið verði meira en það þarf að vera og í raun komið í veg fyrir stórtjón.
Securitas veitir um tuttugu þúsund aðilum vörn af einhverju tagi, þar af eru tólf þúsund heimili eða um 10 prósent af öllum fasteignum á landinu. „Við erum með öryggiskerfi í öllum tegundum húsnæðis, frá fjölbýli til einbýlis,“ segir Hjörtur. Hann telur að fólk sé að verða mun meðvitaðra um kosti öryggiskerfanna, sér í lagi fjölskyldufólk sem er stór hluti af viðskiptavinum Securitas. „Flestir finna hjá sér þörf til að skoða öryggismál sín þegar fyrsta barnið fæðist.“
Einnig er mikill vaxtarbroddur á fyrirtækjamarkaði að sögn Hjartar. „Þar bjóðum við upp á fjölbreyttar vörur og þjónustu, sérstakar brunavarnir, myndeftirlit og aðgangsstýringar svo aðeins fátt eitt sé nefnt,“ upplýsir hann.
Öflug tækniþekking
Í kringum 450 manns starfa hjá Securitas. Um 45 prósent starfa sem öryggisverðir sem þýðir að meirihluti starfsmanna sinnir störfum í stoð- og tæknideildum. „Tæknideildin er ein stærsta deildin okkar enda má segja að við séum farin að tejast til hátæknifyrirtækis,“ segir Hjörtur. Hann bendir á að ótrúleg tækniþróun eigi sér stað í þessum bransa, sér í lagi öllu sem tengist myndeftirliti. „Manni finnst þróunin ævintýri líkust. Það sem maður sá í bíómyndum fyrir fimm árum og þótti ótrúverðugt er orðið að veruleika í dag,“ lýsir hann. Til dæmis megi þekkja andlit fólks í fjölda með ótrúlegri nákvæmni, hægt sé að greina milli kynja og greina hæð fólks.
Þjónusta um allt land
Securitas veitir þjónustu víðs vegar um Ísland. Meginstarfsstöðin er í Reykjavík, en einnig eru starfsstöðvar á Reykjanesi, Akureyri, Austurlandi, Selfossi og í Borgarnesi. „Securitas býður sams konar þjónustu um allt landið og sama vöruframboð,“ segir Hjörtur.
Securitas starfrækir stjórnstöð í Reykjavík og á Akureyri. „Starfsfólk okkar á stjórnstöðvunum sinnir þörfum viðskiptavina fyrirtækisins allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, allan ársins hring,“ lýsir Hjörtur en sími stjórnstöðvar er 533-5533.
Leiðandi frá upphafi
Securitas er löngu orðið þjóðþekkt fyrir starfsemi sína enda hefur fyrirtækið verið leiðandi á öryggismarkaðnum frá upphafi. „Við leggjum metnað okkar í að vera leiðandi og gerum það með því að veita framúrskarandi þjónustu og höfum við að leiðarljósi að stytta okkur aldrei leið í veitingu þjónustunnar. Við hlustum á viðskiptavini okkar og erum sífellt að breyta vinnulagi og þjónustuframboði okkar eftir kröfum þeirra.“