Innlent

Ögmundur hættir í haust

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hefur ákveðið að leita ekki endurkjörs í næstu alþingiskosningum.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hefur ákveðið að leita ekki endurkjörs í næstu alþingiskosningum. vísir/Vilhelm
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hefur ákveðið að leita ekki endurkjörs í næstu alþingiskosningum. Ögmundur var fyrst kjörinn á þing árið 1995 og hefur því setið á þingi í 21 ár.

Þetta kemur fram á bloggsíðu Ögmundar. Þar segir hann að 1. maí, baráttudagur verkalýðsins, sé sinn uppáhaldsdagur og því við hæfi að tilkynna þessa ákvörðun á deginum í dag.

„Ég hef ákveðið að bjóða mig ekki fram í næstu þingkosningum. Komið er að því að breyta um umhverfi,“ segir í bloggfærslu Ögmundar.

„Uppáhaldsdagurinn minn, 1. maí, baráttudagur verkalýðsins, þykir mér góður fyrir þessa ákvörðun. Á þessum degi líta menn yfir farinn veg en fyrst og fremst er horft fram á veginn. Það geri ég fullur tilhlökkunar um leið og ég þakka öllum þeim sem hafa stutt mig til verka á þingferli mínum,“ segir Ögmundur.

Hann segist ekki ráðgera að hætta að lifa lífinu þótt hann hætti á Alþingi og við taki ný verkefni eftir þingkosningar í haust.

Ögmundur var fyrst kjörinn á þing fyrir Alþýðubandalagið árið 1995 en árið 2003 var hann kjörinn á þing fyrir Vinstri hreyfinguna - Grænt framboð. Ögmundur gegndi embætti heilbrigðisráðherra árið 2009, dóms- og samgöngumálaráðherra árið 2010 og innanríkisráðherra árið 2011 til 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×