Innlent

Kalla eftir viðbrögðum vegna Mývatns

Svavar Hávarðsson skrifar
Kúluskítur er horfinn, bleikjan að hverfa og hornsílastofninn í sögulegu lágmarki.
Kúluskítur er horfinn, bleikjan að hverfa og hornsílastofninn í sögulegu lágmarki. Fréttablaðið/GVA
Þrír þingmenn Vinstri grænna, þau Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dóttir og Svandís Svavars­dótt­ir, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um ráðstafanir til að bæta fráveitumál á landsbyggðinni og viðbrögð við náttúruvá við Mývatn.

Þau gera að tillögu sinni að umhverfis- og auðlindaráðherra sé falið af Alþingi að skipa starfshóp sem fari yfir ástand fráveitumála í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins og geri tillögur til úrbóta sem miðist við að fráveitur sveitarfélaganna uppfylli lögmælt skilyrði og samræmist sjónarmiðum um umhverfisvernd.

Enn fremur geri starfshópurinn kostnaðaráætlun vegna þeirra fráveituframkvæmda sem talin er þörf á í hverju sveitarfélagi. Forgangsröðun í þessu starfi verði þannig að fyrst verði fjallað um fráveitur sveitarfélaga þar sem friðlýst svæði eru, þá um fráveitur sveitarfélaga sem ekki liggja að sjó og loks um fráveitur sveitarfélaga almennt. Nauðsynleg aðkoma ríkisins að lausn mála verði skilgreind í hverjum fyrrgreindra flokka sveitarfélaga um sig.

Þá álykti Alþingi að veittar verði 15 milljónir króna ár hvert, næstu þrjú ár, til Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn sem varið verði til að styrkja rannsóknir á umhverfi og lífríki Mývatns í því skyni að leita orsaka þeirra lífríkisbreytinga sem þar hafa orðið á undanförnum árum.

Enn fremur að veittar skuli 170 milljónir króna til helminga á þessu og næsta ári, til fyrsta áfanga fyrirhugaðrar uppbyggingar á hreinsi- og fráveitumannvirkjum í Skútustaðahreppi með það að markmiði að lágmarka áhrif byggðar og starfsemi í hreppnum á Mývatn og vatnasvæði þess.

Tilefni tillögunnar er verulegar breytingar sem hafa orðið til hins verra á lífríki Mývatns, og eru raktar til ofauðgunar í vatninu af mannavöldum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×