Hel tekur um fimm þúsund standandi gesti en um sjö þúsund höfðu sett tónleikana í sína eigin persónulegu dagskrá áður en þeir voru færðir frá aðalsviðinu sem kallast Valhalla. Því er ljóst að færri komast að en vilja.
Ósk Gunnarsdóttir, einn skipuleggjenda hátíðarinnar, segir að verið sé að reyna gera það besta úr óviðráðanlegum aðstæðum. Ekki hefði verið um annan tónleikastað en Hel að ræða, ella hefði þurft að sleppa tónleikunum alveg sökum þess að leyfi til þess að hafa útitónleika gildir einungis til miðnættis.

Nokkrar breytingar á dagskrá
Ósk hvetur aðdáendur til þess að koma sér snemma fyrir í röð vilji þeir tryggja sér pláss á Die Antwoord. Hún bendir þó á að Of Monsters and Men verði á stóra sviðinu, Valhalla, á sama tíma og því ætti fólksfjöldinn að dreifast á þessi tvö stóru nöfn.
„Þetta er bara eins og á Airwaves, tónleikagestir þurfa að velja hvað þeir vilja sjá. Stundum er ekki hægt að sjá allt,“ útskýrir hún.
Hel verður opið í nótt eftir tónleika Die Antwoord en þá stígur á svið listamaðurinn Kerri Chandler. „Nokkrar breytingar á dagskránni voru nauðsynlegar til þess að láta nýjan tíma rappsveitarinnar ganga upp,“ segir í tilkynningu.
„Plötusnúðurinn Apollonia hefur verið færður í danstjaldið Ask klukkan 23:00 og plötusnúðarnir Stephane Ghenacia og Voyeur hafa verið færðir síðar um nóttina í Hel. Kerri Chandler kemur fram klukkan 00:30 eftir að Die Antwoord hafa klárað. Breski plötusnúðurinn Artwork kemur fram klukkan 18:50 á stærsta sviði hátíðarinnar Valhalla á sama tíma og Die Antwoord áttu að koma fram.“