Viðskipti erlent

Kvikmyndaaðsókn í Kína dregst saman

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sem stendur eru 39 þúsund kvikmyndasalir í Bandaríkjunum en 31.627 í Kína.
Sem stendur eru 39 þúsund kvikmyndasalir í Bandaríkjunum en 31.627 í Kína. Fréttablaðið/Getty
Aðsókn í kvikmyndahús í Kína minnkaði um fimmtán prósent í júlí, í kjölfar þess að hafa dregist saman um tíu prósent á öðrum ársfjórðungi.

Á síðasta ári var gríðarlegur vöxtur hjá kvikmyndahúsum í Kína, en aðsókn jókst um fimmtíu prósent á árinu 2015. BBC greinir frá því að nú sé viðsnúningur og miðaverð hafi að meðaltali ekki verið lægra í fimm ár.

Kvikmyndaaðsókn er talinn mælikvarði á efnahagslífið í Kína og bendir þetta til þess að Kínverjar séu að skera niður útgjöld vegna efnahagslegs óstöðugleika.

Kína er annað stærsta hagkerfi heimsins og hefur hagvöxtur dregist saman þar undanfarin misseri. Sérfræðingar telja að hagvaxtartölur frá kínverska ríkinu séu uppspuni, þess vegna skoða þeir aðrar tölur eins og orkunotkun og kvikmyndaaðsókn.

Kína er gríðarlega mikilvægur kvikmyndamarkaður, aðsókn þar er sú önnur mesta í heiminum og búist er við því að þar verði fleiri kvikmyndasalir og hærri tekjur af kvikmyndum en í Bandaríkjunum á næsta ári. Sem stendur eru 39 þúsund kvikmyndasalir í Bandaríkjunum en 31.627 í Kína. Niðursveiflan á þessu ári gæti þó hægt á þeirri þróun.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×