„Þeir fengu mig til að endurhanna úlpu sem lítur dagsins ljós í nóvember. Ég geri sem sagt mína útgáfu af úlpunni Mjöll og verða einungis hundrað eintök í boði,“ segir Manuela en hönnunarferlinu verður fylgt eftir í sérlegri raunveruleikaþáttaröð sem sýnd verður á Stöð 2 í vetur.
Manuela útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands síðastliðið vor úr fatahönnun og er þetta fyrsta verkefnið hennar í bransanum eftir að námi lauk. Hún hefur hins vegar enga reynslu af sjónvarpsþáttagerð og viðurkennir að það taki talsvert meira á að vera fyrir framan linsuna í þáttagerð heldur en hefðbundinni sjálfsmyndatöku, en líklega eru fáir jafn hoknir af reynslu í þeim efnum og einmitt hún, með sína sautján þúsund fylgjendur á Snapchat.
„Mér fannst það sjúklega erfitt en líka gaman. Ég lærði helling og það er dálítið fyndið að upplifa hversu leikstýrt raunveruleikasjónvarp er. Það er náttúrulega ekkert raunverulegt við það,“ segir hún kímin.
Manuela er sjálf hæstánægð með samstarfið við Zo-On þrátt fyrir talsvert ólíkar áherslur, en líkt og flestir vita hefur Zo-On mestmegnis einskorðað sinn stíl við útivistarstíl en Manuela hallast frekar að götustíl.

Spurð frekar út í hina dularfullu úlpu segir hún hana enn ekki klára til sýningar, prótótýpur og hugmyndir séu enn að fljúga á milli, er vel sé hægt að segja að hún sé talsvert ólík því sem útivistartýpurnar eiga að venjast.
„Þetta er eins konar bomber-snið og þetta er funksjónal flík. Það er, að hana er hægt að nota á þrjá ólíka vegu,“ útskýrir hún og á þar við að hægt sé að nota úlpuna með fóðri, án fóðursins og svo fóðrið eitt og sér.
„Þannig held ég að óhætt sé að segja að fólk fái mikið fyrir peninginn, auk þess, eins og áður segir, sem það eru aðeins hundrað úlpur í boði og hver og ein er merkt sérstaklega. Þannig er hægt að komast hjá því að önnur hver manneskja sé í sömu úlpunni, það getur orðið hálf púkalegt,“ bendir hún á. Hún segist gera ráð fyrir að úlpan muni kosta um fimmtíu og fimm þúsund krónur, sem sé örlítið dýrara en óbreytt útgáfa af úlpunni Mjöll.
Ekki verður hjá því komist að spyrja þennan þúsundþjalasmið hvort hún sjái fyrir sér frekari landvinninga í sjónvarpi hlær hún og segist hún ekki útiloka neitt.