Líkt og Vísir greindi frá var Paltrow hér á ferð með börnum sínum, Apple og Moses, sem hún á með Íslandsvininum Chris Martin, söngvara Coldplay.
Segir hún í ferðasögu sinni að Ísland sé fullkomið fyrir fjölskylduferð enda hrífi landið með sér bæði börn og fullorðna. Fékk hún lúxusferðaþjónustufyrirtæki til þess að skipuleggja fyrir sig einstaka ferð og markmiðið var einfalt. Þau áttu að fá að sjá eins mikið og mögulegt var á fimm dögum.
Á fyrsta degi skellti fjölskyldan sér í fjórhjólaferð um Reykjaneskagann þar sem þau gæddu sér á kleinum í hrauninu. Segir Paltrow að kleinurnar séu keimlíkar kleinuhringjum, bara mun betri. Þá stoppuðu þau á Grillmarkaðinum í kvöldmat áður en þau gistu í Tower Suites Reykjavik.

Eftir hádegismat fóru þau í Þríhnjúkagíga sem má segja sé að verða einn vinsælasti áfangastaður frægra einstaklinga sem hingað koma til lands en stutt er síðan David Beckham skellti sér þangað ásamt eiginkonu sinni Victoriu.
Eftir þéttskipaðan dag fóru þau að lokum í Bláa lónið sem þau segja vera einstakt.
Á þriðja degi fetaði fjölskyldan í fótspor Kim Kardashian og fóru þau gullna hringinn áður en þau skelltu sér á snjósleða upp á Langjökul. Þaðan fóru þau á Friðheima sem öðlaðist heimsfrægð þegar Kim og Kanye gæddu sér á tómötum sem ræktaðir eru á staðnum.
Á fjórða degi var komið að þyrluferð í Þórsmörk þar sem stoppað var á Gígjökli og komið við hjá Seljalandsfossi.
Fimmti og síðasti dagurinn fór svo í hestaferð hjá Sólhestum á Suðurlandi auk þess sem borðaður var hádegismatur við Fjöruborðið á Stokkseyri en Paltrow virðist hafa verið svo hrifinn af matnum að hún útbjó sína eigin uppskrift að íslenskum humri sem lesendur Paltrow geta nálgast hér.
Ferðasöguna í heild sinni og fleiri myndir má sjá hér.
