Innlent

Geir þögull sem gröfin um störf sín í Frakklandi

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Geir Þorsteinsson vill ekki upplýsa í hverju vinna hans fólst þær fjórar vikur sem hann var í Frakklandi í sumar.
Geir Þorsteinsson vill ekki upplýsa í hverju vinna hans fólst þær fjórar vikur sem hann var í Frakklandi í sumar. Vísir/Daníel
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, vill ekki gefa upp hvaða vinnu hann innti af hendi í Frakklandi á meðan Evrópumótið stóð yfir. Geir fékk tveggja mánaða laun í bónus fyrir vinnu sína en annað starfsfólk KSÍ, sem vann úti í Frakklandi, aðeins einn.

Í samtali við Fréttablaðið segist Geir ekki vilja dæma sín störf sjálfur. Þeir íþróttafréttamenn sem voru við störf á EM á vegum 365 staðfesta að Geir hafi verið í Annecy, þar sem íslenska liðið dvaldi á meðan EM stóð yfir, fyrstu tvo dagana en horfið síðan á braut og ekki komið þangað aftur.

Íslenska landsliðið og föruneyti hélt til Frakklands þann sjöunda júní og sneri til baka daginn eftir tapleikinn gegn Frökkum í átta liða úrslitum mánudaginn fjórða júlí. Dvölin stóð því í 27 daga.

Í tillögu fjárhagsnefndar KSÍ, sem var kynnt í lok sumars, segir að viðbótargreiðslan komi til vegna góðs árangurs í starfi í tengslum við riðlakeppni EM og úrslitakeppnina í Frakklandi.

Fyrir að komast í átta liða úrslit fékk KSÍ rúma tvo milljarða í verðlaunafé frá UEFA. Leikmenn fengu sinn skerf, starfsfólk aukamánuð, Geir fékk tvo mánuði greidda og aðildarfélög innan KSÍ fengu um 400 milljónir.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×