Leikjavísir

Mafia 3: Frábær skemmtun sem verður að leiðindum

Samúel Karl Ólason skrifar
Lincoln Clay á ekki sjö dagana sæla þegar hann snýr heim úr Víetnam stríðinu.
Lincoln Clay á ekki sjö dagana sæla þegar hann snýr heim úr Víetnam stríðinu.
Undanfarna daga hef ég átt í skringilegu sambandi við leikinn Mafia 3 sem einkennist af æðislegum hápunktum og lágpunktum sem komu sífellt oftar. Samband okkar byrjaði með látum, hasar og spennu. Þetta blessaða samband varð þó fljótlega þreytt og á endanum fór ég eiginlega í fýlu við leikinn.

Mafia 3 er einstaklega vel skrifaður og talsettur. Persónur leiksins eru djúpar og raunverulegar og sagan er grípandi. Tæknilega séð veldur leikurinn hins vegar vonbrigðum og hann hefði líklega þurft nokkra mánuði til viðbótar áður en hann var gefinn út.

Leikurinn fjallar um Lincoln Clay, sem er nýkominn heim aftur til New Bordeaux (New Orleans) eftir þátttöku í Víetnam stríðinu þar sem hann stýrði sérsveit. Sveitin sú varði tíma sínum handan við víglínur við ráða háttsetta menn af dögum. Leikurinn gerist árið 1968 og er það tímabil sem hefur ekki brugðið oft fyrir í leikjum.

Framleiðendur leiksins hika ekki við að sýna raunverulega mynd af tímunum og staðsetningunni þar sem rasismi var víðtækur og sem þeldökkur ungur maður verður Lincoln fyrir töluverðum fordómum. Eftir að vera svikinn af mönnum sem Lincoln áleit vera vini sína er hann staðráðinn í að taka völdin í New Bordeaux og koma öllum óvinum sínum fyrir kattarnef.

Allt lofar þetta góðu og Mafia 3 eftir Hangar 13 byrjar gífurlega vel en dalar með tímanum en allt of oft þurfa spilarar að endurtaka sömu verkefnin aftur og aftur. Verkefnin eru nánast öll eins og leikurinn verður að einhverskonar hringiðu endurtekninga.

Til marks um það eru spilarar hvattir til að safna plötuumslögum, plakötum og Playboy tímaritum sem eru á víð og dreif um New Bordeaux. Ég gerði það af mikilli samviskusem þar til ég áttaði mig á því að ég græddi nákvæmlega ekki neitt á því. Ég átti bara að safna þessu drasli til þess að safna því.

Þegar kemur að sögu leiksins leikur Mafia 3 á alls oddi. Hún er mjög vel skrifuð og sett fram á skemmtilegan og oft á tíðum öðruvísi máta. Það væri auðvelt að gera sögu Lincoln Clay að hefðbundinni hefndarsögu en það er ekki gert í leiknum.

Í leiknum þarf Lincoln Clay að leggja undir sig hverfi New Bordeaux, eitt af öðru. Hins vegar eru öll hverfin nánast eins þar sem verkefnin í öllum þeirrum eru samskonar og í hinum. Hittu þennann, talaðu við hinn og dreptu einhvern annann.

Hverfunum er svo úthlutað til bandamanna Lincoln (Þeir sem spiluðu Mafia 2 ættu að kannast við einn þeirra). Því ríkari sem bandamenn Lincoln verða, því betri vopn og aðrar uppfærslur er mögulegt að öðlast, en varast þarf að hundsa bandamennina. Þá geta þeir orðið til vandræða.

Lögreglan getur einnig orðið til vandræða, sérstaklega ef spilarar brjóta af sér í hverfi þar sem ríkt hvítt fólk býr. Þá er lögreglan kölluð til nánast samstundis. Ef spilarar brjóta af sér í fátækrahverfum er ekki einu sinni víst að lögreglan mæti á staðinn.

Svokölluð „Fast Travel“ kerfi sem gera spilurum kleift að ferðast hratt á milli staða eru oft á tíðum umdeild. Það er þó ekkert umdeilt við það kerfi í Mafia 3 því það er ekki til staðar.

Kort Mafia 3 er tiltölulega stórt, sem er í raun óþarfi þar sem það er mjög lítið um að vera í því. Þá er ökukerfi leiksins langt frá því að vera það besta. Þó vill svo skemmtilega til að lögin í leiknum eru einkar skemmtileg.

Það er einfaldlega ótækt að eyða einhverjum tíu mínútum í að keyra þvert yfir kortið til þess að drepa fimm sex vonda karla og stela bíl eða bát. Bílnum, eða bátnum, þarf svo að keyra, eða sigla, þvert yfir kortið aftur í aðrar tíu mínútur. Svo þarf að endurtaka þetta nokkrum sinnum eða oft, eftir því hvernig leikurinn er spilaður.

Það versta sem ég lenti í varðandi þetta var að keyra þvert yfir endilangt kortið, en samt aldrei í beinni línu þar sem vegir eru á þvers og kruss, til að stela vörubíl og landa. Þegar ég kom að leiðarenda eftir nokkurra mínútna ferðalag var hins vegar enginn bíll á staðnum.

Beinirinn sem vísar spilurum á markmið þeirra var bara á tómu svæði. Ég fór að næsta markmiði sem var á svipuðum slóðum og þar kom ég einnig að engu. Það var reyndar komið í lag þegar ég fór næst í leikinn, en ég þurfti aftur að eyða tíma í að keyra yfir endilangt kortið.

Vonbrigði

Skotkerfi leiksins er „cover based“ eins og það er kallað, þar sem færa þarf Lincoln á milli staða þar sem hann er í skjóli og hann getur skotið á óvini sína án þess að setja sig í mikla hættu. Þá er einnig hægt að laumast um og „púlla Rambó“ og myrða vonda karla með risastórum hnífi.

Hljóð Mafia 3 er gott, þegar það virkar fullkomlega. Ég lenti oft í því að setjast upp í bíl og keyra af stað, án þess að heyra í bílnum. Það fór svo í gang eftir allt að hálfa mínútu.

Útlitið er ágætt en ekkert meira en það. Lýsingin varð stundum eitthvað skrítin hjá mér og skringilegir blettir birtust í umhverfinu sem fylgdi Lincoln um tíma. Persónur leiksins eru þó líflegar og hreyfingar þeirra eru flottar.

Yfir heildina litið olli Mafia 3 mér vonbrigðum. Fyrstu klukkutímarnir sem ég spilaði hann voru frábærir. Sífelldar endurtekningar, gallar og mikill tími sem fór til spillis drógu hins vegar verulega úr gamaninu þegar leið á leikinn.

Saga leiksins er þó, eins og áður segir, alveg frábær. Það er bara verst að til þess að upplifa hana þarf að eyða heilu klukkutímunum í verkefni sem eru einfaldlega leiðinleg.

Samanburður á útliti eftir tölvum.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×