Innlent

Stormur og talsverð rigning annað kvöld

Bjarki Ármannsson skrifar
Vindaspá fyrir klukkan ellefu annað kvöld.
Vindaspá fyrir klukkan ellefu annað kvöld. Mynd/Veðurstofa Íslands
Búist er við stormi vestan til á landinu og á hálendinu annað kvöld, að því er fram kemur í viðvörun frá Veðurstofu Íslands. Stormurinn verður suðaustan og fylgir honum talsverð rigning en hægari vindur og úrkomuminna verður þó um landið norðaustanvert.

Í dag verður allhvöss eða hvöss suðlæg átt á landinu, hvassast um landið norðvestanvert, en sums staðar enn hvassara á norðanverðu Snæfellsnesi. Rigning og súld sunnan- og vestanlands en hægari vindur og skýjað með köflum um landið austanvert.

Vegagerðin vekur athygli á því að búast má við hvössum vindstrengjum á norðanverðu Snæfellsnesi og á Vestfjörðum í dag og nótt og sums staðar varhugavert fyrir almenna umferð. Einnig má gera ráð fyrir snörpum vindhviðum á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.

Líkt og fram hefur komið, gera slæm veðurskilyrði á Snæfellsnesi björgunarsveitarmönnum erfitt fyrir í leit þeirra að tveimur rjúpnaskyttum sem saknað er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×