Erlent

Hægri hönd Trump mokar inn peningum á hverju ári vegna Seinfeld

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bannon er umdeildur.
Bannon er umdeildur. Vísir/Getty
Hinn umdeildi Steve Bannon, einn nánasti samstarfsmaður Donald Trump, sem best er þekktur fyrir að reka vefmiðilinn Breitbart News rakar inn peningum á hverju ári vegna sjónvarpsþáttanna vinsælu Seinfeld.

Frá þessu er greint á TheWrap. Bannon, sem er kaupsýslumaður og fjölmiðlamógúll og hafði yfirumsjón með kosningabaráttun Donald Trump, starfaði áður á Wall Street.

Á tíunda áratugnum, áður en að Seinfeld varð gífurlega vinsæll sjónvarpsþáttur, kom hann að samningaviðræðum vegna kaupa á hlut í framleiðslufyrirtæki þáttanna, Castle Rock.

Í stað þess að þiggja greiðslu fyrir ráðgjöfina þáði hann hlut í sjónvarpsréttindum fimm þátta Castle Rock, þar á meðal Seinfeld sem þá var kominn í þriðju seríu.

Reikna má með að Bannon hafi grætt ótæpilega á þessum samningum enda varð Seinfeld einn vinsælasti sjónvarpsþáttur allra tíma og er enn. Hefur þátturinn rakað inn peningum frá því að síðasti þáttturinn var sýndur árið 1998.

Árið 2013 hafði þátturinn halað inn 3,1 milljarð bandaríkjadollara í tekjur fyrir þá sem hlut eiga að máli. Óvíst er hversu stóran hlut Bannon eigi í þáttunum. Sé hann eitt prósent má gera ráð fyrir að Bannon hafi halað inn 31 milljón dollara

Bannon er umdeildur mjög en vefmiðilll hans, Breitbart, er þekktur fyrir þjóðernishyggju, kynþáttahyggju og samsæriskenningar í umfjöllun sinni. Vefmiðillinn hefur meðal annars borið fóstureyðingar saman við helförina og smánað fórnarlömb kvenna sem hafa orðið fyrir áreitni á netinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×