Erlent

Segir hreinsanir sínar njóta stuðnings Donalds Trump

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bandaríkjaforseti segir Rodrigo Duterte vera í meira lagi litríkan.
Bandaríkjaforseti segir Rodrigo Duterte vera í meira lagi litríkan. Vísir/Epa

Áætlun Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, um að drepa alla grunaða fíkniefnasala og neytendur í landinu virðist eiga hljómgrunn hjá verðandi forseta Bandaríkjanna - ef marka má Duterte sjálfan.

Í yfirlýsingu sem Duterte sendi frá sér í gær lýsir forsetinn 7 mínútna samtali sem hann átti við Donald Trump á föstudag. Þar kemur fram að Trump hafi sagst styðja herferð Duterte gegn fíkniefnum á Filippseyjum. Talið er að á fimmta þúsund manns hafi verið ráðnir af dögum án dóms og laga á þeim 5 mánuðum sem herferðin hefur staðið yfir.

Að sögn hins filippseyska sagði Trump að Duterte væri að gera þetta „á réttan hátt,“ eins og það er orðað á vef Washington Post.

Sjá einnig: Duterte segist ekki geta drepið alla

Talsmenn bandaríska forsetaefnisins hafa ekki staðfest ummælin en séu þau rétt má gera ráð fyrir því að þau kunni að hafa áhrif á samskipti ríkjanna tveggja.

Filippseyjar eru fyrrum nýlenda Bandaríkjanna og hafa ríkin verið miklir bandamenn svo áratugum skiptir. Það kom þó annað hljóð í strokkinn með kjöri Dutertes í vor sem hefur reglulega hótað því ögra Bandaríkjunum með því að styrkja sambandið við Kína og Rússland.

Duterte lét til að mynda Barack Obama heyra það í september síðastliðnum þegar sá bandaríski lýsti efasemdum um fíkniefnaherferð filippeyska forsetans. Við það missti Duterte stjórn á sér og kallaði Obama öllum illum nöfnum, svo sem hóruunga.

Talsmenn Sameinuðu þjóðanna, Bandaríkjastjórnar og Evrópusambandsins hafa allir fordæmt herferð Duterte. Það hafa mannréttindasamtök gert að sama skapi sem í október síðastliðnum furðuðu sig á ummælum forsetans sem þá stærði sig af því að vera líkt við Hitler.

„Hitler myrti þrjár milljónir gyðinga. Nú, hér eru þrjár milljónir eiturlyfjasjúklinga. Ég myndi glaður slátra þeim,“ sagði Duterte. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×