Innlent

Varað við stormi á Vestfjörðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Á þriðjudaginn hlýnar hins vegar aftur um skeið þegar mjög djúp lægð fer norðaustur yfir landið með vonskuveðri og rigningu eða slyddu.
Á þriðjudaginn hlýnar hins vegar aftur um skeið þegar mjög djúp lægð fer norðaustur yfir landið með vonskuveðri og rigningu eða slyddu. Vísir/Vilhelm
Veðurstofa Íslands varar við stormi á Vestfjörðum í kvöld og á morgun. Á þriðjudaginn er svo aftur von á stormi víðar um landið. Þá mun kólna hér á landi í vikunni og þykir ekki ólíklegt að jörðin verði hvít um jólin.

Stormurinn sem spáð er í kvöld mun ekki standa lengi yfir, en honum fylgja skúrir og síðar él. Á morgun er spáð suðvestan hvassviðri eða stormi og hvassast um landið norðvestanvert. Þá er éljagangi spáð sunnan- og vestantil á landinu.

Á þriðjudaginn hlýnar hins vegar aftur um skeið þegar mjög djúp lægð fer norðaustur yfir landið með vonskuveðri og rigningu eða slyddu. Ef spár ganga eftir.

Snjókoma er víða í kortunum eftir helgi en ekki er fullvíst að snjórinn muni halda fram að jólum. Þá er von á hlýnun eftir jól.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Sunnan 18-23 A-lands um morguninn, annars talsvert hægari. Víða rigning eða slydda, hiti 1 til 7 stig. Vestan og suðvestan 18-25 m/s með skúrum eða éljum síðdegis, fyrst S-lands, en norðlægari og snjókoma NV-til. Kólnandi veður.

Á miðvikudag:

Suðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og víða él. Frost 0 til 8 stig, kaldast N-lands.

Á fimmtudag:

Suðvestanátt og él, en yfirleitt þurrt á N- og A-landi. Áfram fremur kalt í veðri.

Á föstudag:

Snýst í vaxandi austan- og síðar norðaustanátt með snjókomu SA-lands síðdegis. Hvassviðri og slydda eða snjókoma um kvöldið, einkum á A-verðu landinu. Minnkandi frost og hlánar á SA-landi og við A-ströndina um kvöldið.

Á laugardag:

Norðlæg átt og úrkomulítið S-til á landinu. Annars víða snjókoma, en slydda eða rigning við NA-ströndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×