Innlent

Flugi til Kaupmannahafnar aflýst vegna veðurs

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Stormur er víðast hvar á landinu.
Stormur er víðast hvar á landinu. vísir/stefán
Búið er að aflýsa flugi SAS til Kaupmannahafnar vegna veðurs. Flugið var á áætlun klukkan 11.30 en ekki liggur fyrir hvenær flogið verður, enda stormi spáð bæði í dag og á morgun.

Allt annað millilandaflug er á áætlun líkt og sakir standa. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA, segir flugfélögin fylgjast vel með veðurspám og aðstæðum og að hvert félag fyrir sig taki ákvörðun um hvort flogið verði eða ekki. Hann telur þó litlar líkur á frekari röskunum á millilandaflugi.

Þá hefur öllu áætlunarflugi innanlands verið aflýst í dag.

Búist er við vondu veðri næstu daga og allt fram að gamlársdegi í það minnsta, en Veðurstofan hefur varað við stormi í dag og á morgun.

Mjög hvasst er á Reykjanesbrautinni og á Snæfellsnesi, en á Reykjanesbraut er vindhraðinn allt að 24 til 26 metrar á sekúndu. Vindáttin er suðlæg og liggur því þvert á veginn.

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði í samtali við Vísi í dag að björgunarsveitir væru í viðbragðsstöðu og hvatti fólk til þess að fylgjast með færð á vegum og veðurspám.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×