Innlent

Útlit fyrir stórhríð á vegum á Austurlandi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Útlit er fyrir stórhríð á fjallvegum á Austurlandi og síðar einnig á Norðurlandi austan Eyjafjarðar í dag. Færð getur hæglega spillst á Austur- og Norðausturlandi í dag, að því er segir á vef Veðurstofunnar.

Gert er ráð fyrir vaxandi norðanátt og snjókomu, hvassviðri Austanlands en stormi eða roki suðaustantil í dag. Talsvert hægari vindur og él á vestanverðu landinu. Frost núll til átta stig en hlánar við suðaustur- og austurströndina. Lægir á morgun en snjóar áfram á Norðurlandi.

Hvessir aftur af norðri með slyddu eða snjókomu á jóladag en rigningu Austanlands. Vindur snýst síðan líklega í sunnanátt og hlýnar í veðri en búist er við asahláku á þriðjudag með mikilli rigningu á Suður- og Vesturlandi.

Í athugasemdum veðurfræðings á vefsíðu Veðurstofunnar segir að í byggð á Austfjörðum fari úrkoma yfir í slyddu, en yfir fjallvegina megi ætla að skyggni verði afar lítið í mikilli snjókomu og skafrenningi. Búist sé við allt að 23 metrum á sekúndu um landið austanvert og að sunnan undir Vatnajökli, frá Lómagnúpi og austur á Berufjörð verði hviður 35 til 45 metrar á sekúndu frá hádegi og fram á kvöld.

Laugardagur (aðfangadagur jóla):

Norðan og norðvestan 13-18 m/s. Snjókoma eða él, einkum N-til á landinu. Lægir smám saman og dregur úr úrkomu. Hiti um eða undir frostmarki.

Sunnudagur (jóladagur):

Hvöss norðanátt. Úrkomulítið S-lands, annars snjókoma en rigning eða slydda við A-ströndina. Hiti breytist lítið.

Mánudagur (annar í jólum):

Suðlæg átt og víða él, en snjókoma fram eftir degi NA-lands. Frost 0 til 8 stig. Slydda eða snjókoma á S- og V-landi um kvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×