Innlent

Varað við stórhríð á norðausturlandi á Þorláksmessu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vindaspá Veðurstofunnar klukkan 15 á morgun, Þorláksmessu.
Vindaspá Veðurstofunnar klukkan 15 á morgun, Þorláksmessu. mynd/veðurstofan
Veðurstofan vekur athygli á því að færð getur hæglega spillst á morgun á Austur-og Norðausturlandi á morgun. Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir:

„Vegna djúprar lægðar sem fer til norðurs fyrir austan land er útlit fyrir stórhríð frá klukkan 15 á Þorláksmessu, á fjallvegum á Austurlandi og síðar einnig á Norðurlandi austan Eyjafjarðar. 



Í byggð á Austfjörðum fer úrkoma yfir í slyddu, en yfir fjallvegina má ætla að skyggni verði afar lítið í mikilli snjókomu og skafrenningi.

Spáð er norðaustan- og síðar norðanátt, allt að 23 m/s um landið austanvert. Sunnan undir Vatnajökli, frá Lómagnúpi og austur á Berufjörð, verða hviður 35-45 metrar á sekúndu frá hádegi og fram á kvöld.

Veður mun ganga niður á aðfangadagsmorgun og verða skaplegt fram á aðfangadagskvöld.“

Veðurhorfur á landinu eru annars þessar:

Suðvestan 8-15 m/s og éljagangur, hvassast við S-ströndina, en 5-10 og bjartviðri A-lands. Frost 0 til 10 stig, kaldast NA-til. Hægari í nótt, en síðan vaxandi norðaustanátt, 18-23 m/s með snjókomu eða slyddu A-til á morgun og hlýnar þar, 23-28 um tíma austan Öræfa, en mun hægari og él V-til.

Á laugardag (aðfangadagur jóla):

Norðan og norðaustan 8-15 m/s, en vestan 5-10 á S- og V-landi. Snjókoma fram eftir degi N- og A-lands, en annars él. Frost víða 0 til 5 stig.

Á sunnudag (jóladagur):

Norðaustanhvassviðri eða -stormur og talsverð slydda eða snjókoma, en rigningu á Austfjörðum. Hiti kringum frostmark.

Á mánudag (annar í jólum):

Breytileg átt, víða él og svalt í veðri. Gengur í stífa sunnanátt með slyddu og rigningu S- og V-til um kvöldið og hlýnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×