Innlent

Búið að bjarga flestum af heiðunum: Veðrið gengur hratt niður á milli 8 og 9 í kvöld

Birgir Olgeirsson skrifar
Björgunarsveitarfólk var kallað út á Mosfellsheiði fyrr í dag vegna rútu með 18 farþega sem rann út af veginum og valt. Ekki er talið að um alvarleg meiðsli sé ræða, hvorki á farþegum rútunnar né bílstjóra hennar.
Björgunarsveitarfólk var kallað út á Mosfellsheiði fyrr í dag vegna rútu með 18 farþega sem rann út af veginum og valt. Ekki er talið að um alvarleg meiðsli sé ræða, hvorki á farþegum rútunnar né bílstjóra hennar. Vísir/Eyþór
Björgunarsveitarfólk hefur komið flestum þeim í skjól sem festu bíla sína á Hellisheiði, í Þrengslunum og á Mosfellsheiði í þæfingsfærðinni sem myndaðist þar í dag vegna óveðurs.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg er verið að koma þeim síðustu sem sitja þar fastir til aðstoðar. Búið er að opna um Hellisheiði en Mosfellsheiði er enn lokuð.

Björgunarsveitarfólk var kallað út á Mosfellsheiði fyrr í dag vegna rútu með 18 farþega sem rann út af veginum og valt. Ekki er talið að um alvarleg meiðsli sé ræða, hvorki á farþegum rútunnar né bílstjóra hennar.

Veðurstofa Íslands spáir því hins vegar að miklar breytingar verði á veðri upp úr átta eða níu leytið í kvöld og mun þá lægja.

Afar djúp lægð hefur verið yfir landinu í dag en til allrar hamingju er engin hæð í nágrenni við Ísland. „Þá værum við með ævintýralega brjálað veður,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni.

Lægsti loftþrýstingur á landinu mældist 946 millibör klukkan 17 í Stykkishólmi. Ef svona djúpri lægð hefði fylgt háþrýstisvæði yfir Grænlandi væri voðinn vís.

Þetta er þó langt frá því lægsti þrýstingur sem hefur mælst á Íslandi. Hann fer örsjaldan undir 940 millibör en lægsti loftþrýstingur sem hefur mælst á Íslandi var 2. desember árið 1929 í Vestmannaeyjum, 920 millibör.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×