Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn segir að staðfesting Hæstaréttar á gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjaness yfir grænlensku skipverjunum tveimur sem grunaðir eru um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana muni ekki hafa nein áhrif á það hvernig lögregla mun haga rannsókninni. Lögregla muni óska eftir frekari gæsluvarðhaldi yfir mönnunum ef þurfa þyki.
Lögreglan hafði krafist fjögurra vikna gæsluvarðhalds yfir mönnunum en héraðsdómur úrskurðaði mennina í tveggja vikna gæsluvarðhald síðastliðinn fimmtudag og var sú ákvörðun staðfest af Hæstarétti í dag.
Sjá einnig: Hæstiréttur féllst ekki á lengra gæsluvarðhald yfir skipverjunum tveimur
Grímur segir í samtali við Vísi að ef þurfa þyki muni lögreglan óska eftir framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir mönnunum þegar gæsluvarðhaldstímabilinu lýkur þann 2. febrúar næstkomandi.
„Ef það er mat okkar og ákæruvaldsins að það sé efni til að fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhaldi frá og með 2. febrúar munum við fara fram með kröfu um það á nýjan leik, “ segir Grímur en lögreglan rannsakar nú hvernig lík Birnu rataði á Selvogsvita og hvort mennirnir tveir hafi ekið henni suður á Reykjanes eða hvort henni hafi skolað þangað með hafstraumum frá öðru svæði.
Munu óska eftir framlengingu á gæsluvarðhaldi ef þurfa þykir
Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
