Erlent

Trump ýjar að því að fjölmiðlar hylmi yfir hryðjuverkaárásir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. vísir/epa
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ýjaði að því í ræðu sem hann hélt fyrir leiðtoga í bandaríska hernum í dag að fjölmiðlar væru vísvitandi að hylma yfir hryðjuverkaárásir með því að segja ekki frá þeim.

„Þið hafið séð hvað gerðist í París og Nice. Þetta er að gerast úti um allt í Evrópu og þetta er komið á þann stað að það er ekki einu sinni verið að segja frá því. Í mörgum tilfellum vilja þessir rosalega óheiðarlegu fjölmiðlar ekki segja frá því. Þeir hafa sínar ástæður og þið skiljið þær,“ sagði Trump í ræðu sinni í dag.

Í umfjöllun um málið á vef The Washington Post segir að það sé vissulega svo að ekki er fjallað um allar hryðjuverkaárásir sem eiga sér stað í heiminum í fjölmiðlum í Bandaríkjunum. Það hafi hins vegar ekkert með það að gera að hylma yfir árásir vísvitandi heldur sé um að ræða ritstjórnarlegar ákvarðanir hverju sinni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trump, eða ráðgjafar úr hans herbúðum, gagnrýnir fjölmiðla í stuttri forsetatíð sinni en hann tók við embætti þann 20. janúar síðastliðinn. Þannig líkti Steve Bannon, helsti ráðgjafi Trump, fjölmiðlum við stjórnarandstöðu á dögunum og sagði að þeir ættu að þegja og hlusta enda skildu þeir ekki þjóðina.

 

Bannon hafði skömmu eftir innsetningarathöfn Trump sakað fjölmiðla um lygar varðandi það hversu margir komu og fylgdust með innsetningunni. Í  sömu viku höfðu fjölmiðlar aftur á móti sett spurningamerki við fullyrðingar forsetans þess efnis að fjöldi atkvæða í forsetakosningunum í nóvember hafi verið ólögleg.


Tengdar fréttir

Vill ekki að Donald Trump ávarpi breska þingið

John Bercow, forseti neðri deildar breska þingsins, vill ekki að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fái að ávarpa þingið þegar hann kemur í opinbera heimsókn til Bretlands síðar á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×