Innlent

Hvassviðri eða stormur næstu daga

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ekki er útlit fyrir að það taki að lægja eða rofa til að ráði fyrr en í lok vikunnar.
Ekki er útlit fyrir að það taki að lægja eða rofa til að ráði fyrr en í lok vikunnar. Vísir/Ernir
Veðurstofan varar við hvassviðri eða stormi allvíða næstu daga og ekki er útlit fyrir að það taki að lægja eða rofa til að ráði fyrr en í lok vikunnar. Búist er við annarri bylgju um næstu helgi.

Núna er austan- og suðaustanstormur víða um land en gera má ráð fyrir að það dragi talsvert úr vindi seint í nótt eða í fyrramálið. Þá gengur aftur í suðaustanhvassviðri eða –storm á morgun og hviðótt á norðvestanverðu landinu um kvöldið.

Á vef Veðurstofunnar segir að ekki sé útlit fyrir neina lognmollu um næstu helgi því þá sé von á annarri bylgju sem jafnvel endi með útsynningi eða éljaklökkum.

Veðurhorfur á landinu:

Austlæg átt, 15-23 m/s og rigning, hvassast á annesjum NA-til, en úrkomulítið fyrir norðan. Dregur heldur úr vindi og úrkomu í nótt. Sunnan og suðaustan 18-23 m/s á morgun og rigning með köflum, en þurrt að kalla fyrir norðan. Hiti 3 til 9 stig.

Á miðvikudag:

Suðaustan 18-25 m/s og talsverð rigning, hvassast V-ast, en úrkomulítið fyrir norðan. Hiti 5 til 10 stig. Hægari og úrkomuminni um kvöldið og kólnar heldur.

Á fimmtudag:

Suðlæg átt, víða 13-18 m/s og talsverð rigning eða slydda, en hægara síðdegis og rofar til á V-verðu landinu. Hiti 0 til 8 stig, hlýjast nyrst.

Á föstudag:

Suðlægar áttir og él V-til, en annars rigning eða slydda með köflum. Hiti kringum frostmark.

Á laugardag:

Vaxandi suðlæg átt með slyddu og síðar rigningu og hlýnandi veðri, en úrkomulítið fyrir austan.

Á sunnudag og mánudag:

Suðlæg átt og súld eða rigning með köflum og hlýtt í veðri, en þurrt að kalla NA-til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×