Erlent

Mike Pence ver svívirðingar Trump í garð dómarans

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, varði ummæli forsetans Donald Trump í garð alríkisdómarans James Robart, sem úrskurðaði að tilskipun Trump um ferðabann fólks frá sjö múslímaríkjum ætti ekki rétt á sér.

Ákvörðun Robart gerði forsetann æfan, sem tók sig til og nýtti sér Twitter aðgang sinn til að gera lítið úr dómaranum. Sagði hann ákvörðun dómarans „vera fáránlega“ og að henni „yrði hnekkt.“

Sjá einnig: Trump æfur eftir lögbann alríkisdómara á innflytjendabann

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna áfrýjaði banni dómarans, en áfrýjunardómstóll hafnaði beiðninni og því ljóst að tilskipunin er ekki í gildi, að svo stöddu.

„Forseti Bandaríkjanna á allan rétt á því að gagnrýna dómsvaldið og löggjafarvaldið,“ sagði Pence, en óvenjulegt þykir þó að forsetinn ráðist með þessum hætti á einstaklinga sem vinna innan dómsvaldsins.

„Ég held ekki að hann hafi verið að efast um lögmæti dómarans,“ sagði Pence, sem tók fram að hann hefði fulla trú á því að tilskipun forsetans muni lifa af meðferð dómstóla.

„Við erum þess fullviss um að aðgerðir forsetans eru fullkomlega löglegar samkvæmt stjórnarskránni,“ sagði Pence, sem sagði auk þess að innflytjendabannið hefði „ekkert með trú að gera,“ en mikill meirihluti ríkisborgara í löndunum sjö, sem falla undir tilskipun Trump, eru múslímar.

Margir þingmenn, Demókratar sem og Repúblikanar, hafa gagnrýnt Trump harðlega fyrir að skipta sér af dómstiginu með þessum hætti.

„Við höfum forseta, sem ég er mjög hræddur um að sé að snúa Bandaríkjunum í átt að valdboðsstjórn, en hann hefur augljósa fyrirlitningu á dómsstiginu okkar,“ sagði fyrrverandi forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders.

„Við erum lýðræði, en ekki eins manns þáttur. Við erum ekki enn eitt Trump fyrirtækið.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×