Erlent

Ísraelar tilkynna byggingu þrjú þúsund heimila á Vesturbakkanum

Samúel Karl Ólason skrifar
Yfirvöld í Ísrael hafa kynnt áætlanir um að byggja þrjú þúsund ný heimili á Vesturbakkanum. Um er að ræða fjórðu kynningu Ísraela um nýjar landtökubyggðir á þeim tæpu tveimur vikum sem Donald Trump hefur setið í embætti forseta Bandaríkjanna.

Frá innsetningarathöfn Trump hefur verið kynnt að til standi að byggja 566 heimili í herteknum hluta austur-Jerúsalem og 5.502 heimili á Vesturbakkanum.

Á sama tíma hafa öryggissveitir Ísrael hafið brottflutning landnema frá landtökubyggðinni Amona á Vesturbakkanum, þar sem til stendur að rífa fjölda heimila. Hæstiréttur Ísrael hefur úrskurðað að byggðin hafi verið byggð á ólöglegum stað, en deilur hafa staðið um hana í marga mánuði.

Mótmælendur hafa kveikt elda í kringum byggðina.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni hefur niðurrif Amona verið verulega óvinsæl aðgerð meðal harðlínumanna innan hægri-sinnaðri ríkisstjórn Ísrael og er yfirlýsingin um nýjustu landtökubyggðina sögð vera til þess að friða þá.

Donald Trump hefur heitið auknum stuðningi við Ísrael og hefur jafnvel talað um að flytja sendiráð Bandaríkjanna í Ísrael frá Tel Aviv til Jerúsalem. Palestínskir embættismenn segja að það væri stríðsglæpur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×