Kröpp lægð gengur til norðaustur fyrir sunnan land í dag að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Það er því ekki úr vegi fyrir þá sem þurfa að vera á ferðinni í dag að fylgjast vel með veðurspá og færð á vegum.
Á vef Vegagerðarinnar kom inn ábending frá veðurfræðingi núna í hádeginu þar sem segir að suðaustanlands í Öræfum og við Lómagnúp snúist vindur eftir hádegi til norðaustan áttar og hvessir þá á ný. Á milli klukkan 14 og 17 í dag má því gera ráð fyrir hviðum allt að 30 til 40 metrum á sekúndu á þessum slóðum en lægir svo um kvöldið.
Færð á vegum
Þrengslin eru enn lokuð og þá er hálka og mikið hvassviðri á Kjalarnesi. Hálkublettir eru nokkuð víða á Reykjanesi. Snjóþekja og skafrenningur er á Hellisheiði en hálka og snjókoma á Sandskeiði. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á felstum leiðum á Suðurlandi.
Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á Vesturlandi. Hálka og skafrenningur er á Bröttubrekku.
Á Vestfjörðum er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á felstum leiðum. Þungfært er úr Bjarnarfirði á Ströndum norður í Árneshrepp.
Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á Norðurlandi.
Á Austurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja og éljagangur á felstum leiðum. Snjóþekja og skafrenningur er á Möðrudalsöræfum. Ófært er á Öxi.
Hálkublettir eða snjóþekja eru með suðausturströndinni.
Veðurhorfur á landinu
Norðaustan og síðar norðan 10-20 metrar á sekúndu, hvassast suðaustan til og víða slydda eða snjókoma, en styttir upp suðvestan lands eftir hádegi. Hægari vindur og stöku él á Norðvestur og Vesturlandi. Hiti 0 til 5 stig sunnan heiða, annars í kringum frostmark.
Lægir í kvöld og kólnar. Austan og suðaustan 5-13 á morgun, heldur hvassara um kvöldið. Snjókoma eða él og frost 0 til 5 stig, en mildara syðst.
Hviður gætu farið upp í 40 metra á sekúndu
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
