Innlent

Engin „stórátök í veðrinu“ framundan

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Útlit er fyrir að það verði mun skýjaðara á morgun en að undanförnu
Útlit er fyrir að það verði mun skýjaðara á morgun en að undanförnu Vísir/Vilhelm
Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir því að hæðin sem haldið hefur lægðum frá landinu sé að gefa það mikið eftir að von sé á að lægðirnar nálgist landið á nýjan leik.

Ekki er þó reiknað með að lægðunum fylgi „stórátök í veðrinu“ líkt og það er orðað í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Útlit er þó fyrir að það verði mun skýjaðara á morgun en að undanförnu, og að úrkoman verði bundin við suðaustur og austurland að mestu.

Gera spár ráð fyrir að heldur hlýni á landinu, í það minnsta í bili.

Veðurhorfur á landinu

Hægt vaxandi austanátt í dag, 8-18 síðdegis, hvassast með suðausturströndinni. Dálítil él SA- og A-til en snjókoma eða slydda suðaustanlands undir kvöld. Léttskýjað að mestu í öðrum landshlutum.

Frost 2 til 12 stig, en hiti yfir frostmarki við suður- og austurströndina síðdegis. Skýjaðara veður á morgun og úrkomumeira SA- og A-til undir kvöld. Heldur mildara.

Á sunnudag:

Norðaustlæg átt 8-15 m/s, hvassast við suðaustur- og austurströndina. Dálítil snjókoma og síðar slydda suðaustantil á landinu, en þykknar upp vestantil. Víða frostlaust við ströndina, en vægt frost til landsins.

Á mánudag:

Austan og norðaustan 5-13 m/s. Slydda eða rigning sunnan- og austantil, él á Vestfjörðum, en annars úrkomulítið. Hiti 0 til 5 stig, en sums staðar vægt frost í innsveitum.

Á þriðjudag:

Suðlæg eða breytileg átt og dálítil rigning eða snjómugga með köflum en lengst af þurrt N-lands. Hiti 0 til 5 stig, en sums staðar vægt frost í innsveitum.

Á miðvikudag:

Norðan 5-13. Él NV-til, allvíða rigning eða slydda A-lands, en annars úrkomulítið. Hiti 0 til 5 stig, mildast við SA-ströndina, en vægt frost inn til landsins.

Á fimmtudag:

Norðlæg átt og víða slydda eða snjókoma. Hiti um og undir frostmarki.

Á föstudag:

Útlit fyrir norðaustanátt með éljum norðan- og austanlands og frost, en þurrt á S- og V-landi og hiti um frostmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×