Markmiðið er að ná fram því sem fallegt er og gleður augað. Sitt sýnist hverjum en svo mikið er víst að það er alltaf fróðlegt að fá umfjöllun um mismunandi arkitektúr, hverfi og hugmyndir manna um híbýli.
Síðast en ekki síst er einfaldlega gaman að sjá hvernig aðrir hafa hreiðrað um sig. Þrjú heimili eru heimsótt í hverjum þætti og fá sérfræðingarnir aldrei að hitta þá sem búa í eigninni.
Að þessu sinni er komið að einstaklega fallegu húsi á Seyðisfirði. Seyðisfjörður er sá bær hér á landi sem á sér hvað ríkulegastan arf eldri bygginga. Í upphafi hýsti húsið símstöðvarritara og símstöðvarstjóra, en við hliðina á húsinu stóð fyrsta Símstöð landsins, sem er í dag bæjarskrifstofa Seyðisfjarðar.
Eigandi hússins leggur greinilega mikið upp úr því að halda í upprunalegt útlit og tekst virkilega vel til.