Innlent

Spá storméljum á fimmtudag

Birgir Olgeirsson skrifar
Það er leiðindaveður framundan samkvæmt spá Veðurstofu Íslands.
Það er leiðindaveður framundan samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Vísir/Ernir
Veðurstofa Íslands spáir fremur slæmu veðri á fimmtudag. Aðfaranótt fimmtudags mun bæta heldur í vind með snjókomu og slyddu. Yfir fimmtudaginn verður sunnan hvassviðri, jafnvel stormur, og talsverð rigning en á fimmtudagskvöldið snýst í suðvestan átt með éljum.

Á þetta einkum við landið vestanvert en vindur verður hægari og úrkomuminna á norðaustanverðu landinu.

Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur segir í samtali við Vísi að yfir daginn sé gert ráð fyrir að úrkoma verði hvað mest á Bláfjallasvæðinu, Snæfellsnesi og á sunnanverðum Vestfjörðum. Um kvöldið má sem fyrr segir búast við storméljum, og að það geti orðið ansi hvasst í þessum éljum.

Þeir sem hafa hug á að vera á ferðinni á milli landshluta á fimmtudag ættu að íhuga að leggja fyrr af stað því færðin gæti orðið ansi þung þegar líður á daginn.

Á föstudag er búist við áframhaldandi suðvestan átt, 15 - 23 metrum á sekúndu, og éljum en hægari og þurrt austan til á landinu. Hiti 0 til 4 stig, en svalara til landsins. Hægara og úrkomuminna eftir hádegi. Vaxandi sunnanátt með rigningu vestan til um kvöldið og hlýnar.

Á laugardag er gert ráð fyrir sunnan hvassviðri með rigningu og súld, en þurrt að mestu um landið norðvestanvert. Má búast við hita á bilinu sex til fimmtán stigum, hlýjast norðaustan til, en svo mun kólna um kvöldið.

Á sunnudag verður minnkandi suðvestanátt og dálítil él, en léttskýjað á austurhelmingi landsins. Hiti 0 til 6 stig að deginum.

Á mánudag eru líkur á sunnanátt með rigningu eða slyddu sunnan- og vestanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×