Tilefnið er vitaskuld skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á Búnaðarbankanum, en þar kemur fram svo ekki verður um villst, að maðurinn að baki þeim samningum öllum, sem einkenndust af blekkingum fyrst og síðast, var Ólafur. Málið hefur óvænt komið meirihlutanum í Reykjavík í verulegan bobba.
Ólga meðal Pírata
Víst er að samningar Reykjavíkurborgar við félag Ólafs Ólafssonar fjárfestis um uppbyggingu í borginni, og byggingarframkvæmdir athafnamannsins almennt, hafa reynt verulega á meirihlutasamstarfið. Sara Óskarsson, varaþingmaður Pírata, hefur ásamt fleirum, sett fram eindregna kröfu þess efnis að Píratar slíti samstarfinu verði samningum við Ólaf ekki rift. Halldór lítur á þá kröfu sem vantraustsyfirlýsingu á sig. Í pistli sínum, sem birtist nú í morgun, ávarpar hann Ólaf beint.
Halldór Auðar Svansson greinir jafnframt frá því að hann hafi verið starfsmaður netdeildar Kaupþings meðan allt lék í lyndi, fyrir hrun.
Ólafur stærsta vofan og sú hrikalegasta
Halldór segir vofur fortíðar, frá fjármálahruninu, voma enn yfir og Ólafur sé ein þeirra. „Sennilega sú stærsta og hrikalegasta. Þannig er það bara.“Borgarfulltrúinn spyr Ólaf samviskuspurninga: „Hvað ætlar þú að gera til að sýna fram á að þér gangi gott til í þínum fjárfestingum? Hvernig ætlar þú að sýna að þú hefur eitthvað lært og ætlir að laga og breyta? Hvernig ætlar þú að bæta fyrir það vonda sem þú hefur gert um ævina?“

Málið með lóðir Ólafs tvíþætt
Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir að í dag standi til að ræða, á fundi borgarstjórnar, drög að húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. „Sem virkar mjög áferðarfalleg ef maður þekkir ekki málið, ég hins vegar gafst upp á því að lesa hana í gærkvöldi því þar er aðallega verið að telja upp hvað aðrir eru að gera í borginni og látið líta út eins og Dagur sé búinn að vera með smíðabeltið á sér allt kjörtímabilið að byggja 2500-3000 leiguíbúðir, við ætlum að ræða tillögu minnihlutans um uppbyggingu í Geldinganesi, söluna á lóðinni í Vogabyggð til félagsins hans Ólafs Ólafssonar og ástandið í Seljahlíð.“Guðfinna segir að málið með lóðirnar hans Ólafs sé tvíþætt: „Annars vegar átti félag Ólafs nokkrar lóðir sem var verið að gera samning við að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði og uppbyggingu eins og gert var við aðra eigendur í Vogabyggð og hins vegar var félagi hans úthlutað einni af tveimur lóðum sem borgin á á þessu svæði.“
Guðfinna segir að þeim lóðum hafi verið úthlutað fyrir um þremur vikum.