Eldur kom upp í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík í nótt. Þetta er annar bruninn á svæðinu á tveimur vikum. Tjónið í brunanum var umtalsvert og stöðva þarf framleiðslu í einhverja daga.
Slökkvilið fékk tilkynningu um eldinn um klukkan fjögur í nótt frá starfsmönnum fyrirtækisins sem voru við vinnu í verksmiðjunni. Slökkvistarf þótti nokkuð sérstakt þar sem ekki var hægt að ráðast á eldinn með vatni í fyrstu þar sem mjög há rafmagnsspenna er á kísilofninum.
Þegar slökkvilið kom á vettvang logaði eldur á nokkrum stöðum í timbri í veggjum og gólfklæðningu á milli hæða í byggingunni sem telur átta hæðir. Eldurinn logaði í einangrunarrými þar sem rafskaut fara niður.
Mikil hætta er í kringum svona ofna en álið sem kemur út er um átján hundruð gráðu heitt og óráðlegt að nota vatn fyrr en slökkt hefur verið á ofninum. Starfsmenn verksmiðjunnar reyndu að slökkva eldinn áður en slökkvilið kom á vettvang. Engan sakaði í brunanum.
„Við erum ekkert allt of ánægðir að fá eld í svona stóra byggingu en við erum búnir að vera hérna í vettvangsferð. Allt liðið okkar er búið að koma og skoða aðstæður þannig að mannskapurinn vissi að hverju þeir voru að ganga,“ sagði Ólafur Ingi Jónsson, stjórnandi á bakvakt Brunavarna Suðurnesja.
Sléttar tvær vikur eru síðan eldur kom upp í rusli utan við verksmiðju United Silicon og þá lagði þykkan svartan reyk frá svæðinu. Aðstæður voru aðrar í morgun en lítill reykur kom frá byggingunni þar sem eldurinn var en loftræstikerfi verksmiðjunnar var notað til þess að losa reykinn út.
Eldurinn var ekki í þeim hluta þar sem ítrekuð mengun hefur stigið upp frá verksmiðjunni og hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu vikur. Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að mikill hiti hafi orsakað reyksprengingu efst í byggingunni, þannig að eldur varð laus í nótt.
Um klukkustund tók að ná tökum á eldinum í nótt en slökkvistarfi lauk korter yfir sjö í morgun og fengu þá lögreglan og vinnueftirlitið vettvanginn til rannsóknar.
Ekki var búið að leggja mat á tjónið í dag en ljóst er að það er umtalsvert en vegna brunans stöðvast framleiðsla í einhverja daga. Framleidd eru um 65 tonn af áli á hverjum sólarhring.
„Við vitum ekki hvað langan tíma það tekur að koma þessu í gang aftur en það er augljóst mál að verksmiðjan stöðvast við þetta,“ sagði Kristleifur Andrésson, öryggisstjóri United Silicon.
