Búast má við ofanhríð á Austfjörðum á morgun, föstudaginn langa, að því er fram kemur í ábendingum frá veðurfræðingi á vef Vegagerðarinnar.
Þar segir að í dag hafi snjóað austan og suðaustan lands í hægum vindi en að í fyrramálið dýpki lægð fyrir suðaustan land og við það gerir hvassa norðanátt sem gæti náð allt að 15 til 20 metrum á sekúndu.
Það má því reikna með skafrenningi og að á köflum verði mjög blint til aksturs, einkum frá Breiðamerkursandi og austur á Hérað.
Færð og aðstæður á vegum eru annars sem hér segir:
Það eru hálkublettir og éljagangur á Reynisfjalli en annars eru vegir greiðfærir á Suðurlandi.
Á Vesturlandi er hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði en hálkublettir á Bröttubrekku.
Vetrarfærð er á flestum fjallvegum á Vestfjörðum, nokkur hálka eða snjóþekja og skafrenningur. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Hrafnseyrarheiði en Dynjandisheiði er ófær.
Það er þungfært norður í Árneshrepp og skafrenningur.
Á Norðurlandi er krap á Siglufjarðarvegi og hálka á örfáum útvegum en víðast eru aðeins hálkublettir eða alveg greiðfært.
Á Austurlandi er víða nokkur éljagangur og hálkublettir eða jafnvel snjóþekja. Það er hálka á Möðrudalsöræfum og á Breiðdalsheiði en Öxi er ófær.
Greiðfært er með suðausturströndinni.
Ofanhríð í kortunum á föstudaginn langa
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
