Þó önnur verkefni kunni að bætast við í framtíðinni þá er stærsti slagurinn enn að tryggja öllum mannsæmandi laun til að lifa af. Þetta er mat framkvæmdastjóra Starfsgreinasambands Íslands.
Tækninni hefur fleytt fram á gífurlegum hraða undanfarin ár og áratugi og með áframhaldandi þróun eru ýmis störf sem eiga á hættu að deyja út. Hjá Starfsgreinasambandinu hafa menn merkt slíka þróun mála en hingað til hefur það ekki komið að sök.
„Það má búast við miklum breytingum á næstu áratugum. Við verðum að bíða og sjá hvert þetta leiðir og tryggja að fólk geti sótt menntun til að takast á við framtíðina,“ segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. „Víða hafa störf tapast í framleiðslu en þá hafa skapast ný í þjónustu.“
Drífa vísar þar meðal annars til starfa í ferðaþjónustu. „Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem þarf að taka mið af en þetta hefði verið mikið áhyggjuefni ef önnur störf hefðu ekki komið í staðinn.“
Enn sem komið er er þetta hins vegar ekki mest aðkallandi verkefni verkalýðshreyfingarinnar. „Helsta verkefnið er að koma lágmarkslaunum á þann stað að hægt sé að lifa af þeim. Við höfum ekki borið gæfu til að ljúka því verkefni. Þá er húsnæðisvandinn aðkallandi sem og umræðan um tekjujöfnun og jöfnuð í samfélaginu öllu,“ segir Drífa.
Mannsæmandi laun til að lifa af hingað til eilífðarverkefni
Jóhann Óli Eiðsson skrifar
