Svikalogn Þorbjörn Þórðarson skrifar 25. maí 2017 07:30 Það er eitt af fjórum yfirlýstum hagstjórnarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar að sporna gegn frekari styrkingu krónunnar. Þetta kemur fram í glærukynningu á ríkisfjármálaáætlun 2018-2022 sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti hinn 31. mars síðastliðinn. Síðan þá hefur ráðherrann reglulega endurtekið þetta í viðtölum við fjölmiðla. Það er heiðarlegt af ráðherranum að segja beint út að ríkisstjórnin vilji vinna gegn frekari styrkingu krónunnar. Þetta markmið endurspeglast líka í stefnunni. Þannig hefur fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu ekki þann tilgang einan að afla tekna í ríkissjóð heldur einnig að sporna gegn frekari gengisstyrkingu með því að hægja á örum vexti ferðaþjónustunnar. Hins vegar er ekki víst að meginþorri launafólks sé ráðherranum sammála. Það er nefnilega gott að hafa tekjur í íslenskum krónum í dag því innflutt vara og þjónusta er miklu ódýrari en hún var. Það er ódýrara að kaupa matvöru, fatnað og raftæki og það kostar minna að fara í frí til útlanda. Samtök atvinnulífsins hafa miklar áhyggjur af styrkingu krónunnar. „Ef þú ert staddur í miðju góðæri og ert með þrjár af stærstu greinunum, sjávarútveg, ferðaþjónustu og iðnað, í mjög erfiðu árferði, hver er þá undirstaða góðærisins? Ég hef talað um svikalogn í þessu samhengi,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við þetta blað á þriðjudag. Halldór vill sjá hraðari lækkun vaxta hjá Seðlabankanum. Það myndi skapa hvata fyrir innlenda fjárfesta til að fara út með krónur sínar sem myndi sporna gegn innflæði gjaldeyris í hagkerfið. Áhyggjur framkvæmdastjóra SA eru skiljanlegar enda bitnar of mikil styrking krónunnar illa á útflutningsfyrirtækjum. Hins vegar er dálítið broslegt að fylgjast með forsvarsmönnum fyrirtækja í stærstu útflutningsgreinunum kvarta yfir of mikilli gengisstyrkingu krónunnar. Íslenskur sjávarútvegur hagnaðist um 287 milljarða króna samtals á árunum 2009 til 2015. Ferðaþjónustufyrirtækin í landinu hafa á síðustu árum malað gull á vexti ferðaþjónustunnar. Þessi umræða um of mikla gengisstyrkingu krónunnar og að grípa þurfi til aðgerða vegna hennar var fyrirsjáanleg. Þetta gerist alltaf þegar krónan sveiflast upp eða niður. Þá hefst umræða um að það þurfi að skipta um gjaldmiðil eða breyta um peningastefnu. Sveiflur eru óhjákvæmilegur fylgifiskur íslensku krónunnar. Stjórnvöld verða að virða sveiflurnar upp og niður ef það á að standa vörð um sjálfstæðan gjaldmiðil. Það er engin sanngirni í því að beita hagstjórnartækjum gegn frekari styrkingu þegar launafólk þessa lands hefur þurft að þola mörg ár af sársauka vegna veikrar krónu. Mörg fyrirtæki sem reiða sig á innflutning vöru og þjónustu fóru illa út úr banka- og gjaldeyrishruninu. Þau fyrirtæki í útflutningsgreinum sem þola ekki tímabundna gengisstyrkingu krónunnar og eru ekki í stakk búin til að mæta sveiflunum eiga að mæta örlögum sínum án sérstakra inngripa ríkisvaldsins. Fyrirtækin í landinu og launafólk eiga að sitja við sama borð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorbjörn Þórðarson Mest lesið Byggjum fyrir eldra fólk, ekki ungt Ólafur Margeirsson Skoðun Halldór 23.8.2025 Halldór Stattu vörð um launin þín Davíð Aron Routley Skoðun Hlustum í eitt skipti á foreldra Jón Pétur Zimsen Skoðun Skólaskætingur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir Skoðun Andaðu rólega elskan... Ester Hilmarsdóttir Skoðun Hugleiðingar um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs Örn Sigurðsson Skoðun Eldri borgarar – áhrif aðildar að Evrópusambandinu (ESB) Þorvaldur Ingi Jónsson Skoðun „I believe the children are our future…“ Karen Rúnarsdóttir Skoðun Ég vildi óska þess að ég hefði hreinlega fengið krabbamein Íris Elfa Þorkelsdóttir Skoðun
Það er eitt af fjórum yfirlýstum hagstjórnarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar að sporna gegn frekari styrkingu krónunnar. Þetta kemur fram í glærukynningu á ríkisfjármálaáætlun 2018-2022 sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti hinn 31. mars síðastliðinn. Síðan þá hefur ráðherrann reglulega endurtekið þetta í viðtölum við fjölmiðla. Það er heiðarlegt af ráðherranum að segja beint út að ríkisstjórnin vilji vinna gegn frekari styrkingu krónunnar. Þetta markmið endurspeglast líka í stefnunni. Þannig hefur fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu ekki þann tilgang einan að afla tekna í ríkissjóð heldur einnig að sporna gegn frekari gengisstyrkingu með því að hægja á örum vexti ferðaþjónustunnar. Hins vegar er ekki víst að meginþorri launafólks sé ráðherranum sammála. Það er nefnilega gott að hafa tekjur í íslenskum krónum í dag því innflutt vara og þjónusta er miklu ódýrari en hún var. Það er ódýrara að kaupa matvöru, fatnað og raftæki og það kostar minna að fara í frí til útlanda. Samtök atvinnulífsins hafa miklar áhyggjur af styrkingu krónunnar. „Ef þú ert staddur í miðju góðæri og ert með þrjár af stærstu greinunum, sjávarútveg, ferðaþjónustu og iðnað, í mjög erfiðu árferði, hver er þá undirstaða góðærisins? Ég hef talað um svikalogn í þessu samhengi,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við þetta blað á þriðjudag. Halldór vill sjá hraðari lækkun vaxta hjá Seðlabankanum. Það myndi skapa hvata fyrir innlenda fjárfesta til að fara út með krónur sínar sem myndi sporna gegn innflæði gjaldeyris í hagkerfið. Áhyggjur framkvæmdastjóra SA eru skiljanlegar enda bitnar of mikil styrking krónunnar illa á útflutningsfyrirtækjum. Hins vegar er dálítið broslegt að fylgjast með forsvarsmönnum fyrirtækja í stærstu útflutningsgreinunum kvarta yfir of mikilli gengisstyrkingu krónunnar. Íslenskur sjávarútvegur hagnaðist um 287 milljarða króna samtals á árunum 2009 til 2015. Ferðaþjónustufyrirtækin í landinu hafa á síðustu árum malað gull á vexti ferðaþjónustunnar. Þessi umræða um of mikla gengisstyrkingu krónunnar og að grípa þurfi til aðgerða vegna hennar var fyrirsjáanleg. Þetta gerist alltaf þegar krónan sveiflast upp eða niður. Þá hefst umræða um að það þurfi að skipta um gjaldmiðil eða breyta um peningastefnu. Sveiflur eru óhjákvæmilegur fylgifiskur íslensku krónunnar. Stjórnvöld verða að virða sveiflurnar upp og niður ef það á að standa vörð um sjálfstæðan gjaldmiðil. Það er engin sanngirni í því að beita hagstjórnartækjum gegn frekari styrkingu þegar launafólk þessa lands hefur þurft að þola mörg ár af sársauka vegna veikrar krónu. Mörg fyrirtæki sem reiða sig á innflutning vöru og þjónustu fóru illa út úr banka- og gjaldeyrishruninu. Þau fyrirtæki í útflutningsgreinum sem þola ekki tímabundna gengisstyrkingu krónunnar og eru ekki í stakk búin til að mæta sveiflunum eiga að mæta örlögum sínum án sérstakra inngripa ríkisvaldsins. Fyrirtækin í landinu og launafólk eiga að sitja við sama borð.