Innlent

Rútuferðir fyrir þá sem þekkjast boð HB Granda

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda. vísir/anton brink
Fáir starfsmenn HB Granda hafa tekið boði útgerðarinnar um starf í Reykjavík, en umsóknarfrestur er til 1. júlí. Nokkrir hafa sagt upp störfum frá því að tilkynnt var um að útgerðin myndi hætta landvinnslu á Akranesi.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir að bundnar séu vonir við að starfsfólk á Akranesi muni sækjast eftir starfi hjá fyrirtækinu í Reykjavík, en 86 manns var sagt upp störfum samhliða ákvörðun um lokun útgerðarinnar á Skaganum.

„Það var samkomulag á milli okkar og trúnaðarmanna þeirra að við gæfum þeim færi á að svara fram til mánaðamóta – eða út júní. Það eru frekar fáir búnir að sækja um en fólk er sjálfsagt að hugsa sinn gang,“ segir Vilhjálmur í samtali við fréttastofu.

Hann bætir við að þeir sem þekkjast boðið gefist kostur á að ferðast á milli Akraness og Reykjavíkur með rútu á vegum fyrirtækisins. „Við tókum ákvörðun um að bjóða upp á fríar ferðir fram og til baka og væntanlega verðum við með rútu fyrir það starfsfólk.“

Aðspurður segist Vilhjálmur ekki vera með nákvæman fjölda þeirra sem sagt hafa upp störfum í framhaldi af tilkynningu um lokun vinnslunnar. Þá sé ekki komin niðurstaða í viðræður Akraness og HB Granda um framhaldið en verið er að semja um viðhaldsaðgerðir á Akraneshöfn og frekari uppbyggingu atvinnulífs á Akranesi, svo fátt eitt sé nefnt.

Vinnslunni á Akranesi verður lokað 1. september næstkomandi og verður þá sameinuð vinnslunni í Reykjavík. Alls starfa 270 manns hjá fyrirtækinu og dótturfélögum á Akranesi.


Tengdar fréttir

Nefndaformenn: „Þingið þarf að bregðast við“

Þungavigtarmenn á þingi telja að stjórnvöld verði að svara þeim spurningum sem Skagamálið beinir kastljósinu að. Ráðherranefnd skuli jafnvel einbeita sér að byggðafestu og samfélagslegri ábyrgð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×