Vatn og aur flæddi inn í nokkur hús á Seyðifirði og vatn í tvö hús á Eskifirði í vatnsveðrinu þar á föstudag og laugardag. Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands, segir að starfsmenn hennar og óháðir matsmenn séu komnir austur til að byrja að leggja mat á tjónið. Það virðist hins vegar ekki vera stórkostlegt.
„Okkar mat er að við séum að telja þetta frekar í tugum milljóna en hundruð milljóna. Það er langmest hjá einstaklingum og fyrirtækjum,“ segir hún.
Fyrirtæki eiga mörg húsanna
Tjónið varð fyrst og fremst þegar vatn og aur flæddi inn í hús og kjallara, aðallega á Seyðifirði. Húsin sem urðu fyrir tjóni gætu verið á bilinu sextán til tuttugu á Seyðifirði en tvö á Eskifirði, að sögn Huldu Ragnheiðar. Á Eskifirði urðu einnig skemmdir á umgjörð brúar og lagnastokkum undir henni í aurskriðu á föstudag.
Mörg húsanna sem urðu fyrir skemmdum eru í eigu fyrirtækja þar sem gistiheimili og annar rekstur var í þeim, að sögn framkvæmdastjórans.
Viðlagatrygging nær yfir tjón á fasteignum, brunatryggðum innbúum, opinberum mannvirkjum, þar á meðal veitu- og lagnakerfum sveitarfélaga. Hulda Ragnheiður segir að það gæti tekið sex til átta vikur þar til endanleg niðurstaða fæst um hversu mikið greitt verður úr viðlagatryggingu
