„Ég geri þetta aldrei aftur. Þetta er alltof erfitt,“ segir Svavar Hreiðarsson, 46 ára hestamaður á Syðra-Garðshorni í Eyjafirði. Svavar berst við MS-sjúkdóminn en ætlar að komast á heimsmeistaramót íslenska hestsins í Hollandi.
Svavar fær að öllum líkindum ekki fleiri tækifæri í lífinu til að takast á við þennan draum sinn sökum sífellt hrakandi heilsu. Draumur hans er að verða heimsmeistari í skeiði á merinni Heklu frá Akureyri. Hann hefur misst mátt og þrek og er orðinn blindur á öðru auga en þrátt fyrir allt þetta ætlar hann sér stóra hluti í Hollandi.
Vinir hans hafa sett af stað söfnun til þess að hann geti upplifað draum sinn, skeiðkappreið á stærsta sviði hestaíþrótta í gegnum troðfullan leikvang.
„Þetta er alltaf barátta við sjúkdóminn. Núna er þetta erfitt og helvítis puð ef ég á að vera hreinskilinn. Ég er búinn að vera að reyna að safna styrkjum en það gengur erfiðlega. Þess á milli er ég að hreyfa hrossið því það snýst allt um þetta, ég geri ekkert annað,“ segir Svavar.
Hann hefur skilning á þeim fyrirtækjum sem eru háð íslensku krónunni því hann hefur fengið vilyrði frá mörgum sem þurfa að halda fast í hverja krónu.
Svavar þarf sjálfur að útvega fé fyrir stórum hluta þess sem ferðin kostar. Nú ætla vinir hans að létta undir og hafa hafið söfnun á góðgerðarsöfnunarsíðunni generosity.com. Hægt er að finna styrkinn með því að leita undir Svabbi.
Ætlar að verða heimsmeistari þrátt fyrir að vera plagaður af MS
Benedikt Bóas skrifar
