Von er á sólskini og hægviðri á höfuðborgarsvæðinu í dag en eitthvað mun þó bæta í vindinn á morgun, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Hlýjast verður suðvestanlands næstu daga en kólna mun í veðri austan- og norðantil.
Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar, sem birtar voru í morgun, segir að eftir gærdaginn, sem varð hlýjasti dagurinn í tæp fimm ár, líti út fyrir lækkandi hitatölur á næstu dögum.
Fremur svalt er nú orðið úti við austurströnd landsins og þá á einnig að fara smám saman kólnandi á norðanverðu landinu. Ekki þykir veðurfræðingi þó ástæða til að örvænta en dagshiti mun haldast á bilinu 15 til 20 stig á sunnanverðu landinu a.m.k. fram yfir helgi, nóg sé eftir af sumrinu.
Á höfuðborgarsvæðinu verður hægviðri og léttskýjað í dag en austan 5-8 m/s á morgun. Þá verður hiti á bilinu 10 til 17 stig.
Á landinu öllu verður víða léttskýjað en skýjað að mestu austan til og von er á dálítilli rigningu þar á morgun. Hiti verður víða 13 til 25 stig, hlýjast inn til landsins en svalara eystra.
Blíðviðri á höfuðborgarsvæðinu í dag
Kristín Ólafsdóttir skrifar
