Partí, pólitík og púður í vetur Sigríður Jónsdóttir skrifar 9. september 2017 10:30 Hundur í óskilum æfir nú sýninguna Kvenfólk í Samkomuhúsinu á Akureyri. Sumarið er senn á enda en lækkandi sól og komandi skammdegi boða sem betur fer nýtt leikár. Af ýmsu er að taka þetta árið og tímabært að rýna í þær sýningar sem sviðslistahaustið hefur upp á að bjóða.Væntanlegir hápunktar Ein athyglisverðasta sýning haustsins er án efa verðlaunaleikritið Faðirinn eftir franska leikskáldið Florian Zeller í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, sem telst til bestu leikstjóra landsins. Sýningin verður í Kassa Þjóðleikhússins og leikhópurinn er ekki af verri endanum en þar fer fremstur í flokki Eggert Þorleifsson í hlutverki André. Leikritið er vandað og vel skrifað, algjört gullegg fyrir leikara á borð við Eggert, Eddu Arnljótsdóttur og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur. Samtímapólitíkin verður svo sannarlega fyrirferðarmikil á fyrstu mánuðum leikársins. Bergur Þór Ingólfsson, sem má líka telja til landsins bestu leikstjóra, verður við stjórnvölinn í nýrri enskri leikgerð byggðri á 1984 eftir George Orwell. Áhugvert verður að sjá hvernig Þorvaldur Davíð Kristjánsson tæklar hlutverk hins efasemdafulla Winstons. Þorleifur Örn Arnarsson og Mikael Torfason bjóða leikhúsgestum í partí aldarinnar í Borgarleikhúsinu þar sem rannsóknarskýrsla Alþingis um orsakir hrunsins liggur til grundvallar. Þessum mönnum er ekkert heilagt og málefni líðandi stundar verða ekki tekin neinum vettlingatökum. Vonandi verður partíið samt ekki of mikil hugmyndafræðileg óreiða.Steinunn Ólína Þorsteinssdóttir snýr aftur í Þjóðleikhúsið í vetur í Efa.Klassík í nýjum búning Pólitíkin leikur líka stórt hlutverk í Þjóðleikhúsinu á komandi mánuðum. Fyrsta stóra sýning Þjóðleikhússins er Óvinur fólksins eftir Henrik Ibsen í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur í nýrri þýðingu sem hún og nýliðinn Gréta Kristín Ómarsdóttir standa að. Setja má spurningamerki bæði við ansi stirða þýðingu á titlinum sem og þá ákvörðun að breyta Pétri Stokkman í Petru. Slíkar grundvallarbreytingar á verkinu eru mjög viðkvæmar í meðförum og eru ekki endilega til bóta ef aðrar áherslubreytingar í handritinu fylgja ekki með. Þó er mikið fagnaðarefni að Sólveig Arnarsdóttir sé að súa aftur á svið. Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson verður endursviðsett, í tilefni sjötugsafmælis leikskáldsins, og er jólasýning Þjóðleikhússins. Leikskáldið hefur víst endurunnið verkið en slíkt getur verið mjög vafasamt. Aftur á móti er alltaf hægt að treysta á Þröst Leó Gunnarsson til að koma áhorfendum á óvart enda einn af okkar allrabestu leikurum. Hörpu Arnardóttur hefur aftur verið treyst fyrir jólasýningu Borgarleikhússins enda var hennar útgáfa af Dúkkuheimili Ibsens eftirminnileg og vel gerð. Nú leitar hún enn lengra aftur í tímann og sviðsetur Medeu eftir Evrípídes en Hrafnhildur Hagalín sér aftur um leikgerð og þýðingu. Hlutverk Medeu er falið Kristínu Þóru Haraldsdóttur en hún hefur verið á miklu flugi síðustu misseri. Köld geta kvennaráð verið en þessum konum er sko aldeilis treystandi til að koma með nýja sýn á klassíkina.Ný íslensk og endurkomur Leikskáldið framsækna Tyrfingur Tyrfingsson snýr aftur með nýtt leikverk að nafni Kartöfluæturnar í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar. Risaeðlurnar eftir Ragnar Bragason er lokaverk leikhúsþríleiksins hans og verður sýnt í Þjóðleikhúsinu. Þessar tvær sýningar eiga það líka sameiginlegt að marka endurkomu leikkvenna sem snúa aftur á svið í burðarhlutverkum. Sigrún Edda Björnsdóttir leikur aðalhlutverkið í Kartöfluætunum og Edda Björgvinsdóttir sinnir því í Risaeðlunum. Eftir áramót snýr Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir líka aftur og þessu ber að fagna innilega. Þeim öllum. Því miður verður gamla platan að fá spilun enn á ný og hamra á þeirri nauðsyn að sinna íslenskri leikritun betur. Í Þjóðleikhúsinu má finna eitt nýtt leikrit, eitt endurgert, tvö ný barnaleikrit, eina leikgerð og glymskrattasöngleik. Borgarleikhúsið virðist standa sig aðeins betur með fjögur ný verk, eitt nýtt barnaleikrit og eina leikgerð. Tjarnarbíó kemur nokkuð vel út úr þessari upptalningu með allavega fjögur ný leikverk og eitt nýtt barnaverk, þessar tölur gætu breyst. Einnig er vert að nefna að áhorfendur verða að vera duglegri að sinna þessum verkum með því að kaupa miða á ný íslensk verk.Ný leikgerð bókar Orwells 1984 er væntanleg á stóra svið Borgarleikhússins.Blikur á lofti á Akureyri Splunkunýr atvinnuleikhópur var stofnaður fyrir norðan nú fyrir stuttu og nefnist Umskiptingar en þau frumsýndu nýtt verk fyrir stuttu. Svona lýsir einn af stofnendunum forsendum hópsins: „Við erum alls ekki að fara gegn leikfélaginu með því að stofna leikhóp, þvert á móti, því leikhús getur af sér leikhús. Því meira og betra sem úrvalið er þeim mun meira fer fólk í leikhús þannig að aukin fjölbreytni er bara af hinu góða fyrir samfélagið hérna fyrir norðan.“ Við skulum vona að hópurinn verði innspýting í leikhúslífið á Akureyri því eins og áður hefur komið fram stendur Leikfélag Akureyrar á uggvænlegum tímamótum. Félagið er fjársvelt en framlög sveitarfélagsins hafa staðið í stað allt of lengi. Af því leiðir að enginn fastur leikhópur hefur verið ráðinn. Að frátöldum gestasýningum, ábreiðutónleikum og endursýndum sýningum sem eru þó nokkrar eru einungis tvær nýjar leiksýningar, Kvenfólk og Sjeikspír eins og hann leggur sig, áætlaðar á þessu leikári. Aftur á móti má benda á að leikfélagið hefur sinnt grasrótinni afar vel með Borgarasviðinu og námskeiðum fyrir yngra fólk. Slíkt er samt hreinlega ekki nóg fyrir atvinnuleikhús.Sjálfstæða senan og börnin Leikárið í Tjarnarbíó byrjar hægt en mikið er um vinsælar sýningar frá fyrra leikári sem er vel. Áhorfendum hefur fjölgað í um 15.000 og fjölbreytnin er að aukast innanhúss. Aftur á móti eru nýjar leiksýningar fáar fyrir áramót þó að danssenan hafi sko sannarlega fundið samastað í húsinu. SOL eftir leikhópinn Sómi þjóðar stendur kannski efst á listanum og forvitnilegt verður að sjá hvað samstarfshátíðin Everybody’s Spectactular býður upp á í nóvember. Björn Ingi Hilmarsson leikstýrir tveimur barnaverkum í Þjóðleikhúsinu þennan vetur. Fyrst má nefna Oddur og Siggi sem mun byrja sína vegferð á Ísafirði í október en fyrir hið síðara er aftur leitað til Peters Engkvist, en Lofthræddi örninn Örvar kom úr hans smiðju. Salka Guðmundsdóttir skrifar Skúmaskot fyrir Borgarleikhúsið og leikverkið Íó eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur lítur dagsins ljós í Tjarnarbíó.Galdrakarlinn í Oz mætir í Tjarnarbíó í vetur með öllum sínum ævintýrum.Danshús og bíóleikhús Fagfólk innan sviðslistanna hefur verið hávært upp á síðkastið varðandi skammarlegan skort á húsnæði fyrir dansara og danshöfunda á Íslandi. Nýlega misstu þau húsnæði sitt við Skúlagötu og eru þannig orðin húsnæðislaus. Enn og aftur. Listin fæðist ekki í tómarúmi og fæðingin verður gífurlega erfið ef húsnæði er af skornum skammti eða jafnvel ekki til staðar. Leikhúsaðdáendur ættu líka að fylgjast grannt með dagskránni í Bíó Paradís. Á síðustu misserum hefur húsið verið með sýningar í boði NT Live. Nú síðast var það hið óviðjafnanlega meistaraverk Tonys Kushner, Angels in America, sýning sem gekk fyrir fullu húsi í National Theatre í London en einungis fáar hræður mættu á útsendingar hérna heima. Næst á dagskrá er verðlaunasýningin Yerma eftir Federico García Lorca í leikstjórn hins ástralska Simons Stone. Eftir áramót fá Íslendingar loksins að sjá verk eftir hinn goðsagnakennda Stephen Sondheim þegar söngleikurinn Follies verður sýndur en stjörnum hefur rignt yfir sýninguna á síðustu dögum.Söngleikir og grímuleikir Hvað söngleikina á íslensku fjölunum varðar þá er auðvitað spennandi að Borgarleikhúsið taki Rocky Horror til sýningar en hættan er sú að verkið verði matreitt af of mikilli mildi ofan í áhorfendur. Verkið verður að staðsetja á jaðri samfélagsins hverju sinni. Eftir að hafa skrifað fína barnasýningu í fyrra tekur Guðjón Davíð Karlsson aftur upp pennann og mætir með glymskrattasöngleikinn Slá í gegn, byggðan á lögum Stuðmanna. En hvenær munum við sjá nýjan íslenskan söngleik? Með nýjum íslenskum lögum? Biðin ætlar að verða ansi löng. Nú er líka kominn sá tími að endurskoða verði umgjörð og kosningar Grímuverðlaunanna. Aðdragandi hátíðarinnar og síðan afhendingin sjálf var í súrrealískara lagi þar sem félagsfólk átti þess kost að kaupa atkvæðisrétt og tæplega fimmtíu ára gamalt verk fékk tilnefningu sem besta leikritið. Á hátíðinni fengu sumar sýningar óútskýranlega mörg verðlaun og einn hluti af stærra verki fékk verðlaun fyrir sýningu ársins. Ef ekkert verður að gert munu verðlaunin missa alla virðingu innan sviðslistageirans fyrst og síðan hjá áhorfendum. Á öllum helstu leikhúsvígstöðvum á höfuðborgarsvæðinu eru listrænir stjórnendur og framkvæmdastjórar búnir að finna sinn takt, þess má geta að nýlega var Kristín Eysteinsdóttir endurráðin sem leikhússtjóri Borgarleikhússins, og yfirhöfuð endurspeglar leikárið framför frá því síðasta. Fögnum því og leikárinu! Gleðilegt nýtt leikár!Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. september. Menning Mest lesið Peter úr Peter, Paul and Mary látinn Lífið Byggir snjóhús en ætlar að verða dýralæknir í framtíðinni Lífið Getur enn þann dag í dag ekki horft á barnarúm Lífið Mjög tilfinningaríkt að vera með kraftaverk í höndunum Lífið Júlí og Ágúst keppa í Söngvakeppninni í febrúar Lífið Eva og Kári ætla að nýta hverja stund saman Lífið Kynntist eiginkonunni á swingklúbbi Lífið Af og frá að Iceguys taki þátt í Söngvakeppninni Lífið Opið samband fer úrskeiðis Lífið Laufey ástfangin í eitt ár Lífið Fleiri fréttir Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Sumarið er senn á enda en lækkandi sól og komandi skammdegi boða sem betur fer nýtt leikár. Af ýmsu er að taka þetta árið og tímabært að rýna í þær sýningar sem sviðslistahaustið hefur upp á að bjóða.Væntanlegir hápunktar Ein athyglisverðasta sýning haustsins er án efa verðlaunaleikritið Faðirinn eftir franska leikskáldið Florian Zeller í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, sem telst til bestu leikstjóra landsins. Sýningin verður í Kassa Þjóðleikhússins og leikhópurinn er ekki af verri endanum en þar fer fremstur í flokki Eggert Þorleifsson í hlutverki André. Leikritið er vandað og vel skrifað, algjört gullegg fyrir leikara á borð við Eggert, Eddu Arnljótsdóttur og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur. Samtímapólitíkin verður svo sannarlega fyrirferðarmikil á fyrstu mánuðum leikársins. Bergur Þór Ingólfsson, sem má líka telja til landsins bestu leikstjóra, verður við stjórnvölinn í nýrri enskri leikgerð byggðri á 1984 eftir George Orwell. Áhugvert verður að sjá hvernig Þorvaldur Davíð Kristjánsson tæklar hlutverk hins efasemdafulla Winstons. Þorleifur Örn Arnarsson og Mikael Torfason bjóða leikhúsgestum í partí aldarinnar í Borgarleikhúsinu þar sem rannsóknarskýrsla Alþingis um orsakir hrunsins liggur til grundvallar. Þessum mönnum er ekkert heilagt og málefni líðandi stundar verða ekki tekin neinum vettlingatökum. Vonandi verður partíið samt ekki of mikil hugmyndafræðileg óreiða.Steinunn Ólína Þorsteinssdóttir snýr aftur í Þjóðleikhúsið í vetur í Efa.Klassík í nýjum búning Pólitíkin leikur líka stórt hlutverk í Þjóðleikhúsinu á komandi mánuðum. Fyrsta stóra sýning Þjóðleikhússins er Óvinur fólksins eftir Henrik Ibsen í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur í nýrri þýðingu sem hún og nýliðinn Gréta Kristín Ómarsdóttir standa að. Setja má spurningamerki bæði við ansi stirða þýðingu á titlinum sem og þá ákvörðun að breyta Pétri Stokkman í Petru. Slíkar grundvallarbreytingar á verkinu eru mjög viðkvæmar í meðförum og eru ekki endilega til bóta ef aðrar áherslubreytingar í handritinu fylgja ekki með. Þó er mikið fagnaðarefni að Sólveig Arnarsdóttir sé að súa aftur á svið. Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson verður endursviðsett, í tilefni sjötugsafmælis leikskáldsins, og er jólasýning Þjóðleikhússins. Leikskáldið hefur víst endurunnið verkið en slíkt getur verið mjög vafasamt. Aftur á móti er alltaf hægt að treysta á Þröst Leó Gunnarsson til að koma áhorfendum á óvart enda einn af okkar allrabestu leikurum. Hörpu Arnardóttur hefur aftur verið treyst fyrir jólasýningu Borgarleikhússins enda var hennar útgáfa af Dúkkuheimili Ibsens eftirminnileg og vel gerð. Nú leitar hún enn lengra aftur í tímann og sviðsetur Medeu eftir Evrípídes en Hrafnhildur Hagalín sér aftur um leikgerð og þýðingu. Hlutverk Medeu er falið Kristínu Þóru Haraldsdóttur en hún hefur verið á miklu flugi síðustu misseri. Köld geta kvennaráð verið en þessum konum er sko aldeilis treystandi til að koma með nýja sýn á klassíkina.Ný íslensk og endurkomur Leikskáldið framsækna Tyrfingur Tyrfingsson snýr aftur með nýtt leikverk að nafni Kartöfluæturnar í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar. Risaeðlurnar eftir Ragnar Bragason er lokaverk leikhúsþríleiksins hans og verður sýnt í Þjóðleikhúsinu. Þessar tvær sýningar eiga það líka sameiginlegt að marka endurkomu leikkvenna sem snúa aftur á svið í burðarhlutverkum. Sigrún Edda Björnsdóttir leikur aðalhlutverkið í Kartöfluætunum og Edda Björgvinsdóttir sinnir því í Risaeðlunum. Eftir áramót snýr Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir líka aftur og þessu ber að fagna innilega. Þeim öllum. Því miður verður gamla platan að fá spilun enn á ný og hamra á þeirri nauðsyn að sinna íslenskri leikritun betur. Í Þjóðleikhúsinu má finna eitt nýtt leikrit, eitt endurgert, tvö ný barnaleikrit, eina leikgerð og glymskrattasöngleik. Borgarleikhúsið virðist standa sig aðeins betur með fjögur ný verk, eitt nýtt barnaleikrit og eina leikgerð. Tjarnarbíó kemur nokkuð vel út úr þessari upptalningu með allavega fjögur ný leikverk og eitt nýtt barnaverk, þessar tölur gætu breyst. Einnig er vert að nefna að áhorfendur verða að vera duglegri að sinna þessum verkum með því að kaupa miða á ný íslensk verk.Ný leikgerð bókar Orwells 1984 er væntanleg á stóra svið Borgarleikhússins.Blikur á lofti á Akureyri Splunkunýr atvinnuleikhópur var stofnaður fyrir norðan nú fyrir stuttu og nefnist Umskiptingar en þau frumsýndu nýtt verk fyrir stuttu. Svona lýsir einn af stofnendunum forsendum hópsins: „Við erum alls ekki að fara gegn leikfélaginu með því að stofna leikhóp, þvert á móti, því leikhús getur af sér leikhús. Því meira og betra sem úrvalið er þeim mun meira fer fólk í leikhús þannig að aukin fjölbreytni er bara af hinu góða fyrir samfélagið hérna fyrir norðan.“ Við skulum vona að hópurinn verði innspýting í leikhúslífið á Akureyri því eins og áður hefur komið fram stendur Leikfélag Akureyrar á uggvænlegum tímamótum. Félagið er fjársvelt en framlög sveitarfélagsins hafa staðið í stað allt of lengi. Af því leiðir að enginn fastur leikhópur hefur verið ráðinn. Að frátöldum gestasýningum, ábreiðutónleikum og endursýndum sýningum sem eru þó nokkrar eru einungis tvær nýjar leiksýningar, Kvenfólk og Sjeikspír eins og hann leggur sig, áætlaðar á þessu leikári. Aftur á móti má benda á að leikfélagið hefur sinnt grasrótinni afar vel með Borgarasviðinu og námskeiðum fyrir yngra fólk. Slíkt er samt hreinlega ekki nóg fyrir atvinnuleikhús.Sjálfstæða senan og börnin Leikárið í Tjarnarbíó byrjar hægt en mikið er um vinsælar sýningar frá fyrra leikári sem er vel. Áhorfendum hefur fjölgað í um 15.000 og fjölbreytnin er að aukast innanhúss. Aftur á móti eru nýjar leiksýningar fáar fyrir áramót þó að danssenan hafi sko sannarlega fundið samastað í húsinu. SOL eftir leikhópinn Sómi þjóðar stendur kannski efst á listanum og forvitnilegt verður að sjá hvað samstarfshátíðin Everybody’s Spectactular býður upp á í nóvember. Björn Ingi Hilmarsson leikstýrir tveimur barnaverkum í Þjóðleikhúsinu þennan vetur. Fyrst má nefna Oddur og Siggi sem mun byrja sína vegferð á Ísafirði í október en fyrir hið síðara er aftur leitað til Peters Engkvist, en Lofthræddi örninn Örvar kom úr hans smiðju. Salka Guðmundsdóttir skrifar Skúmaskot fyrir Borgarleikhúsið og leikverkið Íó eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur lítur dagsins ljós í Tjarnarbíó.Galdrakarlinn í Oz mætir í Tjarnarbíó í vetur með öllum sínum ævintýrum.Danshús og bíóleikhús Fagfólk innan sviðslistanna hefur verið hávært upp á síðkastið varðandi skammarlegan skort á húsnæði fyrir dansara og danshöfunda á Íslandi. Nýlega misstu þau húsnæði sitt við Skúlagötu og eru þannig orðin húsnæðislaus. Enn og aftur. Listin fæðist ekki í tómarúmi og fæðingin verður gífurlega erfið ef húsnæði er af skornum skammti eða jafnvel ekki til staðar. Leikhúsaðdáendur ættu líka að fylgjast grannt með dagskránni í Bíó Paradís. Á síðustu misserum hefur húsið verið með sýningar í boði NT Live. Nú síðast var það hið óviðjafnanlega meistaraverk Tonys Kushner, Angels in America, sýning sem gekk fyrir fullu húsi í National Theatre í London en einungis fáar hræður mættu á útsendingar hérna heima. Næst á dagskrá er verðlaunasýningin Yerma eftir Federico García Lorca í leikstjórn hins ástralska Simons Stone. Eftir áramót fá Íslendingar loksins að sjá verk eftir hinn goðsagnakennda Stephen Sondheim þegar söngleikurinn Follies verður sýndur en stjörnum hefur rignt yfir sýninguna á síðustu dögum.Söngleikir og grímuleikir Hvað söngleikina á íslensku fjölunum varðar þá er auðvitað spennandi að Borgarleikhúsið taki Rocky Horror til sýningar en hættan er sú að verkið verði matreitt af of mikilli mildi ofan í áhorfendur. Verkið verður að staðsetja á jaðri samfélagsins hverju sinni. Eftir að hafa skrifað fína barnasýningu í fyrra tekur Guðjón Davíð Karlsson aftur upp pennann og mætir með glymskrattasöngleikinn Slá í gegn, byggðan á lögum Stuðmanna. En hvenær munum við sjá nýjan íslenskan söngleik? Með nýjum íslenskum lögum? Biðin ætlar að verða ansi löng. Nú er líka kominn sá tími að endurskoða verði umgjörð og kosningar Grímuverðlaunanna. Aðdragandi hátíðarinnar og síðan afhendingin sjálf var í súrrealískara lagi þar sem félagsfólk átti þess kost að kaupa atkvæðisrétt og tæplega fimmtíu ára gamalt verk fékk tilnefningu sem besta leikritið. Á hátíðinni fengu sumar sýningar óútskýranlega mörg verðlaun og einn hluti af stærra verki fékk verðlaun fyrir sýningu ársins. Ef ekkert verður að gert munu verðlaunin missa alla virðingu innan sviðslistageirans fyrst og síðan hjá áhorfendum. Á öllum helstu leikhúsvígstöðvum á höfuðborgarsvæðinu eru listrænir stjórnendur og framkvæmdastjórar búnir að finna sinn takt, þess má geta að nýlega var Kristín Eysteinsdóttir endurráðin sem leikhússtjóri Borgarleikhússins, og yfirhöfuð endurspeglar leikárið framför frá því síðasta. Fögnum því og leikárinu! Gleðilegt nýtt leikár!Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. september.
Menning Mest lesið Peter úr Peter, Paul and Mary látinn Lífið Byggir snjóhús en ætlar að verða dýralæknir í framtíðinni Lífið Getur enn þann dag í dag ekki horft á barnarúm Lífið Mjög tilfinningaríkt að vera með kraftaverk í höndunum Lífið Júlí og Ágúst keppa í Söngvakeppninni í febrúar Lífið Eva og Kári ætla að nýta hverja stund saman Lífið Kynntist eiginkonunni á swingklúbbi Lífið Af og frá að Iceguys taki þátt í Söngvakeppninni Lífið Opið samband fer úrskeiðis Lífið Laufey ástfangin í eitt ár Lífið Fleiri fréttir Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira