Tilkynnt var í gær að Ísland yrði með í leiknum, sem er einn vinsælasti tölvuleikur í heimi. Athygli vakti á síðasta ári þegar forveri Guðna í starfi, Geir Þorsteinsson, hafnaði tilboði framleiðenda leiksins um að vera með í síðustu útgáfu leiksins, FIFA 17. Taldi hann tilboð tölvuleikjarisans EA Sports vera of lágt.
Í samtali við Vísi segir Guðni að það hafi verið sín upplifun að málið hafi verið komið á ís hjá EA Sports.

Viðskiptablaðið greindi hins vegar frá því í maí að viðræður væru hafnar á milli KSÍ og EA Sports. En hvernig komu þær viðræður til?
„Þetta var í raun og veru í gegnum ákveðin sambönd sem að ég hafði í gegnum fyrirtæki í Skandinavíu. Ég fékk upplýsingar um það að það gæti verið áhugi á þessu í gegnum skandínavísku skrifstofuna,“ segir Guðni.
Þjónusta við stuðningsmennina
Í kjölfarið hófust viðræður sem enduðu með því að íslenska karlalandsliðið, sem vakið hefur mikla athygli fyrir framgöngu sína á knattspyrnuvellinum undanfarin ár, verður með í leiknum. Komið hefur fram að tilboð EA Sports á síðasta ári hafi verið undir tveimur milljónum en Guðni vill ekki segja hversu hátt tilboð EA Sports hafi verið í þetta skiptið.„Þetta er samningur á milli tveggja aðila og það er eðlilegt að það sé trúnaður þar á milli aðila. Þetta er ekki þannig séð miklar fjárhæðir sem um ræðir en þó fjárhæðir sem við værum ekki að fá,“ segir Guðni.
Þá segir Guðni að önnur atriði vegi ef til vill þyngra. Þarna sé landsliðið orðið hluti af vinsælasta íþróttaleik veraldar og því fylgi meiri athygli. Þá sé vera Íslands í leiknum ákveðin þjónusta við stuðningsmenn landsliðsins.

Komið hefur fram að KSÍ hafi reynt að fá kvennalandsliðið sem og Pepsi-deildina einnig inn í leikinn. Guðni segir að mikilvægt sé karlalandsliðinu sé komið inn til að byrja með og síðar verði hægt að skoða hvort að hægt sé að færa út kvíarnar.
„Það er alveg ljóst að um leið og við stöndum okkur vel eins og við höfum að gera þá eru möguleikarnir meiri á þessu sviði eins og öðrum,“ segir Guðni.
En verður víkingaklappið með?
„Ef að það verður ekki í leiknum þá er eitthvað mikið að. Að sjálfsögðu verður það í leiknum. Þetta er orðið heimsþekkt. Það er bara eins og frændi minn Bjarni Fel frændi myndi segja „næsta víst“ að víkingaklappið verður í leiknum.“