Innlent

Skúrir á vestanverðu landinu í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Útlit fyrir að byrjun næstu viku verður áfram svipað veður nema heldur úrkomuminna.
Útlit fyrir að byrjun næstu viku verður áfram svipað veður nema heldur úrkomuminna. Vísir/Eyþór
Veðurstofan spáir skúrum um landið vestanvert í dag en að víða verði bjart veður í öðrum landshlutum.

Spáð er vestan vindi fyrir norðan, fimm til tíu metrar á sekúndu, en annars hæg breytileg átt.

Úrkomuminna verður á vestanverðu landinu á morgun og áfram bjart annars staðar. Hitinn verður á bilinu þrjú til átta sig, en víða næturfrost inn til landsins í nótt.

„Útlit fyrir að byrjun næstu viku verður áfram svipað veður nema heldur úrkomuminna. Víða léttskýjað og því verður áfram líkur á næturfrosti. Austlægar áttir frá og með miðvikudegi fram að helgi með rigningu af og til sunnanlands en þurrt á Norðausturlandi,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Hæg suðlæg átt og víða léttskýjað, en 5-10 m/s með vesturströndinni og skýjað. Hiti 2 til 7 stig, en líkur á næturfrosti, einkum inn til landsins.

Á þriðjudag:

Austlæg átt 3-8, en 8-13 syðst á landinu. Víða bjartviðri, en skýjað með austurströndinni. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Austan 5-13, en 13-18 með suðurströndinni. Rigning með köflum sunnanlands en þurrt annarsstaðar. Hiti 3 til 9 stig, hlýjast sunnanlands.

Á föstudag og laugardag:

Útlit fyrir austan- og norðaustanátt. Bjartviðri um landið vestanvert en skýjað með köflum austan til og einnig lítilsháttar væta austast. Hiti áfram svipaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×