Lífið

Áreiti fylgjenda mikið: Krakkar gargandi fyrir utan heimilið hjá Sonju Valdin

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sonja Valdin er með 16 þúsund fylgjendur á Snapchat.
Sonja Valdin er með 16 þúsund fylgjendur á Snapchat.
Fyrir rösku ári var Sonja óþekktur starfsmaður í Bauhaus. Síðan opnaði hún Snapchatreikninginn sinn og hefur á einu ári náð um það bil 16 þúsund fylgjendum á snappinu.

Þar var hún svo uppgötvuð og hefur á þessum tíma leikið í bíómynd, sungið í poppsmellum og er orðin samfélagsmiðlastjarna. Hún er nú í fullu starfi hjá Áttunni, sem er eitt fyrsta afþreyingarfyrirtæki landsins sem sérhæfir sig í að birta efni á samfélagsmiðlum.

„Mig langar alltaf bara að gráta þegar ég hugsa um það hversu mikill fjöldi er þarna til að fylgjast með mér,” segir Sonja í 2. þætti af Snöppurum sem verður á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld.

Ófeimnir fylgjendur

En drjúgur hluti fylgjenda Sonju eru ungmenni sem eru ófeimin við að nálgast hana. Áreitið er því mikið.

„Það hafa krakkar verið hérna fyrir utan að garga “Neinei” og dingla hjá mér endalaust og það er pirrandi,” segir Sonja og bætir við að það trufli bæði hana og samleigjanda hennar. Lagið Nei nei er vinsælasta lag Áttunnar. Í myndbandinu sem fylgir má sjá fögnuðinn sem brýst út þegar Sonja og Áttan mæta á svæðið.

Sonja tekur hins vegar fram að henni þyki vænt um þegar fylgjendur óska eftir mynd með henni, spjalli eða jafnvel knúsi. En þegar unglingar eru farnir að atast á dyrabjöllunni heima hjá henni sé of langt gengið.

Annar þáttur Snappara verður á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld kl. 19:55 þar sem við kynntumst meðal annars snappstjörnunni Sonju Story og þeim Daníel Má og Anítu Guðlaugu sem bæði langar að stækka á Snapchat. Umsjón þáttanna er í höndum Lóu Pind Aldísardóttur, upptökustjórn og klippingu annaðist Lúðvík Páll Lúðvíksson.


Tengdar fréttir

„Fólk komið með ógeð á auglýsingum á Snapchat“

"Fólk er komið með svolítið ógeð á þessum eilífu auglýsingum,” segir Manúela Ósk Harðardóttir, ein vinsælasta snappstjarna landsins um auglýsingar á Snapchat. Á síðustu tveimur árum hefur þeim fjölgað hratt sem auglýsa vörur og þjónustu á Snapchat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×