Margrét Guðnadóttir veirufræðingur og prófessor lést þriðjudaginn 2. janúar síðastliðinn á Landspítalanum við Hringbraut, 88 ára að aldri.
Margrét, fædd árið 1929, varð fyrst kvenna, prófessor við Háskóla Ísland árið 1969 og gegndi því starfi í þrjátíu ár eða til ársins 1999.
Að læknisfræðinámi loknu starfaði Margrét við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, m.a. með Birni Sigurðssyni en síðar tók hún við starfi forstöðumanns Rannsóknarstofu Háskólans í Veirufræðum.
Eftir hana liggur fjöldi greina og rannsókna á sviði hæggengra veirusýkinga svo sem visnu og mæðiveiki í sauðfé en þær rannsóknir skiluðu niðurstöðum sem vöktu alþjóðlega eftirtekt vísindasamfélagsins. Margrét hlaut margar viðurkenningar fyrir störf sín og var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Læknadeild Háskóla Íslands árið 2011.
