Þótt Valgerður hafi áður sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands var þetta í fyrsta skipti sem hún kom fram á Vínartónleikum. Hún segir það hafa verið stórkostlega upplifun. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti sem kona stjórnaði tónleikunum, Karen Kamensek frá Bandaríkjunum. Karen hefur stjórnað sinfóníuhljómsveitum víða um heim, meðal annars í Vínarborg. „Það er svo gaman að syngja með þessari frábæru sinfóníuhljómsveit sem við Íslendingar eigum,“ segir Valgerður og bætir við að sömuleiðis hafi verið ákaflega ánægjulegt að vinna með Karen og Kolbeini Ketilssyn tenórsöngvara.

Valgerður túlkaði lögin á sinn einstaka hátt í Hörpu og eftir var tekið hversu glæsilegum kjólum hún skartaði á tónleikunum. Sjálf segist hún hafa klæðst fjórum galakjólum. Valgerður viðurkennir að það geti verið höfuðverkur að finna réttu dressin fyrir svona stóran viðburð á sviði. „Maður þarf að finna klæðnað sem hentar tilefninu. Á Vínartónleikum þarf að klæðast einhverju virkilega glæsilegu og elegant. Stundum líður mér þannig að ég hafi notað kjólana mína of oft og reyni þá að finna einhvern sem er langt síðan hefur verið notaður. Fyrir þessa tónleika keypti ég einn nýjan kjól, var í einum uppáhalds, þriðja hafði ég nánast ekkert notað svo hann var eins og nýr. Síðan fékk ég frábæra aðstoð við að breyta þessum fjórða og gera nýjan aftur,“ útskýrir hún. „Sigrún Úlfarsdóttir fatahönnuður var mér innanhandar, hún skreytti einn af eldri kjólunum mínum og þann nýja líka. Ég var því eiginlega í þremur nýjum kjólum,“ segir Valgerður og bætir við að söngkonur þurfi oft að nota sömu kjólana hér heima en í útlöndum þekkist það síður.
Fötin skipta máli
„Það er auðvitað ekki gott að vera alltaf í sama kjólnum en aftur á móti er dýrt að kaupa fína glamúrkjóla svo það er frábært ef hægt er að breyta þeim. Annars er ég dálítið sniðug að finna mér kjóla sem kosta ekki hálfan handlegg. Er eiginlega eins og móður mín að því leyti. Ef einhver hrósaði henni fyrir kjól svaraði hún ævinlega að hún hefði fengið kjólinn á fínu verði. Ég kaupi yfirleitt kjólana mína hér heima. Einu sinni þegar ég kom fram á Frostrósatónleikum fékk ég lánaðan afar fallegan kjól á brúðkjólaleigu. Ég var svo hugfangin af honum að ég sló til og keypti hann. Ég hef notað hann nokkrum sinnum, meðal annars á Vínartónleikunum en það er kjóll líkur þeim sem voru í kvikmyndinni Breakfast at Tiffany’s.“

Stundum bara lúði
Valgerður segir að það sé mjög skemmtilegt að klæða sig upp í síðan galakjól. „Það er ekki bara kjóllinn sem skiptir máli því förðun og greiðsla gerir það líka. Ég var með ótrúlega flinka konu, Írisi Sveinsdóttur, sem sá um hár og förðun á Vínartónleikunum. Það er ekkert gaman að fara í fallegan kjól með lufsulegt hár. Eftir langa reynslu á sviði veit ég hvað klæðir mig og það er gott að fá fagfólk til að útfæra það.“

Mörg verkefni fram undan
Það er margt að gerast hjá Valgerði á næstu vikum. Á laugardag verður hún í Salnum með barnaleikritið Björt í Sumarhúsi eftir Elínu Gunnlaugsdóttur og Þórarin Eldjárn. Með henni verður Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari en Valgerður fer með öll hlutverkin í sýningunni. Einnig er hún að læra hlutverk í vinsælum söngleik, The Phantom of the Opera eftir Andrew Lloyd Webber, sem frumsýndur verður 17. febrúar í Hörpu. Mikið er lagt í sýninguna en auk margra þekktra söngvara kemur fram 30 manna kór, dansarar og SinfoniaNord undir stjórn Þorvaldar Bjarna. Fyrir utan Valgerði koma fram Þór Breiðfjörð, Elmar Gilbertsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Bergþór Pálsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Gísli Magna, Hlöðver Sigurðsson og Greta Salóme.

