Innlent

Bilun í skólphreinsistöð í Hraunavík

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dælu- og hreinstöðin í Hraunavík í Hafnarfirði.
Dælu- og hreinstöðin í Hraunavík í Hafnarfirði. Hafnarfjarðarbær
Bilun kom upp í frárennslidælum í dælu- og hreinsistöð Hafnarfjarðarbæjar í Hraunavík í dag. Hluti skólps frá stöðinni mun því renna beint út í sjó í allt að tvo sólarhringa á meðan viðgerð stendur yfir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Eftir athugun á hreinsibúnaði stöðvarinnar í Hraunavík kom í ljós að ekki var óhætt að keyra búnaðinn með hámarksafköstum á meðan unnið er að viðgerð. Nú mun hluti skólps frá stöðinni því renna fram hjá kerfinu og í gegnum frárennslirör sem nær tvo kílómetra út í sjó, að því er segir í tilkynningu.

Þá er búist við því að viðgerð muni taka einn til tvo sólarhringa. Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hefur jafnframt verið látið vita af biluninni.

Viðbragðsaðilar eru nú við störf í stöðinni og munu ekki hætta fyrr en viðgerð er lokið. Hafnfirðingar gætu enn fremur orðið varir við það að fuglar safnist saman við útrennslið á meðan ástandið varir. Engin sjóböð eru þó stunduð á svæðinu og ættu bæjarbúar því ekki að verða varir við bilunina að öðru leyti, segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×