Innlent

Sláandi mynd­band sýnir hættu­legan fram­úr­akstur á Reykja­nes­brautinni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem Guðmundur birti í dag.
Skjáskot úr myndbandinu sem Guðmundur birti í dag.
Guðmundur Kjartansson, snjómokstursmaður, birti ansi sláandi myndband á Facebook-síðu sinni í dag af hættulegum framúrakstri á Reykjanesbrautinni um helgina. Guðmundur var að moka og salta á veginum á laugardaginn þegar hann varð vitni að atvikinu og náðist það á myndavél sem hann var með í bílnum.

„Ég er á leiðinni inn í Hafnarfjörð og er bara kominn fram hjá álverinu, þetta er þarna á milli álversins og nýju gatnamótanna inn í Helluhverfið í Hafnarfirði,“ segir Guðmundur.

Á myndbandinu sést hvar bíll tekur fram úr Guðmundi þar sem hann er við mokstur. Bíllinn sem kemur úr gagnstæðri átt þarf að sveigja út í kant til að forða árekstri og þá má litlu muna að bíllinn fyrir aftan þann bíl lendi framan á bílnum sem er að taka fram úr Guðmundi.

„Því miður þá lítur þetta verr út undir stýri heldur en á myndbandinu. Ég skil ekki hvernig þetta slapp,“ segir Guðmundur.

„Erum rosalega mikið fyrir“

Hann fer mikið um Reykjanesbrautina vegna vinnu sinnar og aðspurður hvort hann verði mikið var við ógætilegan akstur og framúrakstur segir hann að sem snjómokstursmaður finni hann fyrir því að vera fyrir í umferðinni.

„Við finnum alveg extra mikið fyrir þessu, og ég held að allir snjómokstursmenn taki nú undir það án þess að ég ætli að leggja þeim orð í munn, að við erum rosalega mikið fyrir. Fólk er að reyna að fara fram úr okkur. Maður hefur séð eitt og annað en þetta er það versta,“ segir Guðmundur.

Hann vill koma því á framfæri við ökumenn að snjómokstursmenn eru ekki að leika sér að því að vera fyrir fólki í umferðinni.

„Við erum að moka vegina.“

Myndbandið úr bíl Guðmundar má sjá hér fyrir neðan en rétt er að taka fram að tímastimpillinn á myndavélinni er ekki réttur; myndbandið er síðan á laugardaginn, 17. febrúar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×