Innlent

Teigsskógur varð fyrir valinu

Kristján Már Unnarsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Hreppsnefnd Reykhólahrepps ákvað á fundi sem lauk nú fyrir skömmu að setja veglínu um Teigsskóg inn á aðalskipulag sveitarfélagsins. Það var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu og um leið var þeim valkosti að gera jarðgöng undir Hjallaháls samhliða nýjum vegi um Ódrjúgsháls hafnað. Beina útsendingu Stöðvar 2 frá Reykhólum í kvöld má sjá hér að ofan.

Hreppsnefndin telur ljóst að þó leið um Teigsskóg muni hafa umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif muni vegurinn hafa jákvæð samfélagsáhrif og bæti samgöngur og auki umferðaröryggi meira en hin leiðin. Þar að auki sé verulegur munur á kostnaði verkefnanna eða um sex milljarðar króna.

Hreppsnefndin taldi einnig að kostnaðurinn við gangagerð væri líklegur til að hafa afgerandi áhrif á tímasetningu samgöngubóta.



Sjá einnig: Alveg sama hvar vegurinn kemur, bara að þeir byrji


Vegurinn um Ódrjúgsháls hefur lengi verið umdeildur á sunnanverðum Vestfjörðum og hafa íbúar lengi kallað eftir umbótum.

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitastjóri Reykhólahrepps, segir hreppsnefndina ekki vilja göng meðal annars vegna þess að sú leið væri margfalt dýrari og henni fylgdi minna umferðaröryggi.

„Við teljum kostina sem felast í Teigsskógsleiðinni það mikilvæga að það séu brýnir hagsmunir fyrir því að koma þessari samgönguleið á,“ sagði Ingibjörg.

Hún sagði ekki ljóst hvort með þessu myndi leiðin fást í gegn.

„Við trúum því að við höfum unnið okkar vinnu og séum að leggja fram besta kostinn, samkvæmt þeim gögnum sem hafa legið fyrir okkur og svo verðum við bara að takast á við það sem kemur hér eftir.“

Ingibjörg sagði að endingu að ef allt gengi að óskum ætti að vera hægt að veita framkvæmdaleyfi á fyrstu haustdögum og hefja framkvæmdir í haust.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×